Körfubolti

Hetjuþristur er Kefla­vík sló út ríkjandi bikar­meistara Vals í spennu­trylli

Aron Guðmundsson skrifar
Hilmar Pétursson var afar öflugur í liði Keflavíkur í kvöld. Hér er hann í leik gegn Val undir lok síðasta árs
Hilmar Pétursson var afar öflugur í liði Keflavíkur í kvöld. Hér er hann í leik gegn Val undir lok síðasta árs Vísir/Anton Brink

Keflavík sló út ríkjandi bikarmeistara Vals í átta liða úrslitum VÍS bikarsins í körfubolta í kvöld. Hetjuþristur í algjörum spennutrylli sá til þess að Keflavík fór með eins stigs sigur af hólmi 93-94. Keflavík er komið í undanúrslit bikarsins. 

Um algjöran spennutrylli var að ræða frá upphafi til enda þar sem að liðin skiptust á að koma með áhlaup á hvort annað.

Mikil spenna ríkti fyrir leik hjá gestunum frá Keflavík vegna endurkomu Remy Martin í liðið og það mátti sjá á mætingunni upp í stúku en stuðningsmenn beggja liða fjölmenntu á leik kvöldsins á Hlíðarenda. 

Ekki minnkaði spennan hjá gestunum á upphafsmínútum leiksins þegar að tilþrif frá Remy Martin sýndu fram á að hann hafði engu gleymt og eftir fyrsta leikhluta leiddi Keflavík með fjórum stigum, 11-15. 

Valsmenn byrjuðu annan leikhluta betur, unnu upp forskot Keflavíkinga og  komu sér mest sjö stigum yfir. Það forskot náðu Keflvíkingar þó að vinna upp fyrir lok fyrri hálfleiks og fór svo að leikar stóðu jafnir 38-38 að honum loknum. 

Valsmenn héldu áfram að herja á Keflvíkinga og voru með stjórn á leiknum mestan part þriðja leikhluta en tókst þó ekki að slíta sér almennilega frá gestunum og leiddu með tveimur stigum 73-71 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. 

Ekki varð breyting á baráttu liðanna um forystuna í þeim leikhluta og aðeins tvö stig skildu liðin að þegar komið var fram í síðustu mínútu leiksins 90-88.

Þegar að rétt rúmar 48 sekúndur eftir lifðu leiks setti Callum Lawson niður mikilvæga tveggja stiga körfu fyrir Valsmenn og kom þeim fjórum stigum yfir 92-88 og Keflvíkingar tóku í kjölfarið leikhlé. 

Mirza Bulic reif niður sóknarfrákast fyrir Keflavík eftir að skot Hilmars Péturssonar geigjaði. Bulic setti svo niður tveggja stiga körfu og brotið var á honum í leiðinni. Fékk hann því eitt vítaskot í þokkabót sem hann setti niður í og minnkaði þar með muninn í aðeins eitt stig, 92-91.

Rúmar sautján sekúndur eftir og Valsmenn í sókn. Keflvíkingar brutu á Callum Lawson um leið og þeir gátu og sendu hann á vítalínuna. Lawson setti aðeins niður fyrra vítið. Valsemenn því aðeins tveimur stigum yfir, 93-91.

Keflvíkingar brunuðu í sókn og  Egor Koulechov hlóð í hetjuþrist sem hann setti niður og kom Keflvíkingum einu stigi yfir 93-94. 

Rétt rúmar sex sekúndur eftir og Valsmenn í sókn. Kári Jónsson var maðurinn sem heimamenn leituðu til þar en honum tókst ekki að setja skot niður og leiktíminn rann út. 

Keflvíkingar unnu því ótrúlegan eins stigs sigur í spennutrylli á Hlíðarenda og tryggðu sér þar með sæti í undanúrslitum VÍS-bikarsins. Ríkjandi bikarmeistarar Vals eru úr leik. Lokatölur í N1-höllinni Valur 93-94 Keflavík. 

Hilmar Pétursson var stigahæstur í liði Keflavíkur í kvöld með 24 stig og að auki tók hann sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. 

Þá lofar endurkoma Remy Martin í lið Keflavíkur góðu. Hann setti niður þrettán stig í kvöld, tók sjö fráköst og gaf níu stoðsendingar. Remy meiddist þó í fjórða leikhluta en gat aðeins beitt sér undir lokin. Tíminn verður að leiða það í ljós hvort meiðslin komi til með að plaga hann eitthvað í framhaldinu.  

Keflavík, KR, Stjarnan og Tindastóll eru þau lið sem munu berjast í undanúrslitum VÍS-bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×