Körfubolti

Sunn­lendingar sóttu síðasta far­seðilinn eftir mikla spennu

Sindri Sverrisson skrifar
Hamar/Þór hefndi í kvöld fyrir tapið gegn Ármanni í Bónus-deildinni í síðustu viku.
Hamar/Þór hefndi í kvöld fyrir tapið gegn Ármanni í Bónus-deildinni í síðustu viku. vísir/Anton

Hamar/Þór varð í kvöld fjórða og síðasta liðið til að tryggja sig inn í úrslitavikuna í VÍS-bikar kvenna í körfubolta, með sigri gegn Ármanni í æsispennandi leik í Laugardalshöll, 86-82.

Ármann hafði unnið nauman sigur í leik liðanna í Bónus-deildinni síðasta miðvikudagskvöld og því mátti búast við spennu í kvöld.

Ármann var 29-21 yfir eftir fyrsta leikhluta en gestirnir af suðurlandi hófu annan leikhluta af miklum krafti og komust fimm stigum yfir, 36-31. Þeir voru svo ellefu stigum yfir í hálfleik, 54-43, eftir að hafa unnið annan leikhluta 33-14.

Ármann minnkaði hins vegar forskotið fljótt og úr varð afar spennandi seinni hálfleikur. Hamar/Þór var aðeins stigi yfir, 83-82, fyrir lokamínútuna en fékk ekki á sig stig eftir það og Jadakiss Guinn innsiglaði sigurinn með tveggja stiga körfu og svo víti í næstu sókn, án þess að Ármann næði að svara.

Það verða því Hamar/Þór, Tindastóll, Grindavík og Keflavík sem spila í undanúrslitum VÍS-bikarsins og eru aðeins tveimur sigrum frá bikarmeistaratitlinum.

Guinn og Ana Clara Paz voru stigahæstar hjá Hamri/Þór í kvöld með 26 stig hvor og Jovana Markovic skoraði 16 og tók 13 fráköst.

Hjá Ármanni var Dzana Crnac stigahæst með 22 stig og Nabaweeyah Mcgill skoraði 21 og tók 12 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×