Fótbolti

Hildur lenti í ó­trú­legri hakka­vél

Sindri Sverrisson skrifar
Ewa Pajor skoraði fernu í kvöld og hér þarf Hildur Antonsdóttir að horfa upp á eitt markanna verða til.
Ewa Pajor skoraði fernu í kvöld og hér þarf Hildur Antonsdóttir að horfa upp á eitt markanna verða til. Getty/Ruben De La Rosa

Barcelona var nálægt því að setja met þegar liðið tók á móti Hildi Antonsdóttur og stöllum hennar í Madrid CFF í kvöld í spænsku 1. deildinni í fótbolta. Þrettán mörk voru skoruð í leiknum.

Stjörnur Barcelona-liðisins voru í miklu stuði í þessum fyrsta leik sínum á nýju ári og unnu sannkallaðan risasigur, 12-1.

Um tíma leit út fyrir að þeim tækist að slá félagsmet sitt en stærstu sigrar liðsins eru 13-0 sigrar tímabilin 2016-17 og 2010-11.

Það var pólska markamaskínan Ewa Pajor sem kom Barcelona á bragðið með fyrstu tveimur mörkunum en hún skoraði þrennu í fyrri hálfleik og alls fjögur mörk. Staðan var orðin 7-0 í hálfleik en gestunum tókst að klóra aðeins í bakkann með fyrsta marki seinni hálfleiksins.

Barcelona svaraði því með fimm mörkum, því síðasta á 81. mínútu, og setti því upp sannkallaða sýningu.

Spánarmeistararnir, sem töpuðu úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð, eru nú með 42 stig á toppi spænsku deildarinnar eftir fimmtán umferðir, sjö stigum á undan Real Madrid. Lið Hildar, Madrid CFF, er hins vegar í 7. sæti með 23 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×