Erlent

Hverfi Kúrda í Aleppo í her­kví

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Stjórnarhermenn ganga nú hús úr húsi í Sheikh Maqsoud.
Stjórnarhermenn ganga nú hús úr húsi í Sheikh Maqsoud. AP Photo/Ghaith Alsayed

Sýrlenskir stjórnarhermenn hafa komið sér fyrir í borginni Aleppó í norðurhluta landsins eftir margra daga átök við vígasveitir Kúrda. Tugir manna hafa fallið og særst í átökunum.

Íbúar í hverfinu Sheikh Maqsoud, þar sem meirihluti er kúrdískur, hafa margir hverjir flúið heimili sín vegna átaka síðustu daga. Hverfið er nú sagt í herkví.

Fregnir hafa borist af því að tveir kúrdískir vígamenn hafi sprengt sig í loft upp þegar þeir voru umkringdir stjórnarhermönnum í morgun. Enginn hafi þó slasast. 

Margir íbúar Sheikh Maqsoud hafa flúið heimili sín vegna átakanna.AP Photo/Ghaith Alsayed

Sprengjudróna var flogið á húsakynni héraðsstjórnvalda í Aleppo síðdegis í dag í kjölfar þess að haldinn var blaðamannafundur um stöðu mála vegna átakanna. Ekki hafa borist fregnir af mannfalli en byssuskot hafa heyrst í allan dag í hverfinu. 

Kúrdar hafa verið sakaðir um árásina en þeir hafa neitað því. Íbúar Sheikh Maqsoud hafa verið hvattir til að halda sig heima á meðan herinn gengur hús úr húsi í leit að meintum vígamönnum. 

Deilurnar hófust eftir að stjórnvöldum og fulltrúum Kúrda mistókst að semja um samstarf. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×