Fótbolti

Orri sá sigur­mark á síðustu sekúndu

Sindri Sverrisson skrifar
Orri Steinn Óskarsson er að komast af stað eftir meiðsli en spilaði ekki í kvöld.
Orri Steinn Óskarsson er að komast af stað eftir meiðsli en spilaði ekki í kvöld. Getty/Juan Manuel Serrano Arce

Landsliðsfyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson er enn að bíða eftir því að komast á fulla ferð eftir meiðsli en hann gat þó fagnað ævintýralega sætum sigri af varamannabekknum, þegar Real Sociedad vann Getafe á útivelli í kvöld í spænsku 1. deildinni í fótbolta.

Brais Méndez hafði komið gestunum yfir á 36. mínútu og öll tölfræði benti til þess að þeir myndu fara með sigur af hólmi en á 90. mínútu náði Getafe að jafna þegar Juanmi skoraði.

Það var svo komið fram á sjöttu mínútu uppbótartíma þegar venesúelski bakvörðurinn Jon Aramburu náði að skora sigurmarkið eftir hornspyrnu.

Þetta var fyrsti sigur Real Sociedad eftir að hinn bandaríski Pellegrino Matarazzo tók við liðinu á dögunum og hann er vægast sagt kærkominn, eftir að liðið fagnaði síðast sigri í deildarleik 22. nóvember.

Sigurinn kemur Real fimm stigum frá fallsæti og alla leið upp í 10. sæti, með 21 stig líkt og Getafe sem er sæti neðar, en önnur lið eiga núna leik til góða.

Orri lék lokamínúturnar í 1-1 jafntefli við Atlético Madrid á heimavelli fyrir fimm dögum og var það hans fyrsti leikur síðan 30. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×