Upp­gjörið: Kefla­vík - Haukar 103-78 | Kefla­vík stakk af í seinni hálf­leik og tryggði sér sæti í undan­úr­slitum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir lykilmaður í liði Keflavíkur
Sara Rún Hinriksdóttir lykilmaður í liði Keflavíkur Vísir/Diego

Frábær frammistaða hjá Keflavík í seinni hálfeik í leik liðsins gegn Haukum í átta liða úrslitum VÍS-bikars kvenna í körfubolta í Blue-höllinni suður með sjó í dag tryggði Keflavíkurliðinu farseðilinn í undanúrslit.

Fyrsti leikhluti var kaflaskiptur en Haukar hófu leikinn betur en Keflavík náði svo vopnum sínum og fór með fjögurra stiga forskot, 20-16, inn í annan leikhluta.

Haukar skoruðu svo 11 stig í röð í upphafi annars leihkluta og snéru taflinu sér í vil, 23-27. Haukar héldu áfram undirtökunum í seinni hluta annars leikhluta og gestirnir leiddu 48-41 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Það var hins vegar gríðarlegur kraftur og orka í Keflavíkurliðinu sem kom út úr klefanum eftir hálfleiksræðuna og heimakonur skoruðu fyrstu 10 stig þriðja leikkluta.

Þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta var staðan 20-2 fyrir Keflavík í þeim leikhluta og 61-50 í leiknum. Keflavík spilaði gríðarlega góða vörn og hraðan og skilvirkan sóknarleik og var með 69-56 forystu fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

Keflavík hélt áfram að hamra heitt járnið og sýndi Haukum enga miskunn í fjórða leikhluta. Niðurstaðan sannfærandi 103-78 sigur Keflavíkur sem tryggði sér þar af leiðandi sæti í undanúrslitum keppninna. 

Hörður Axel Vilhjálmsson var sáttur með leikmenn sína. Vísir/Anton Brink

Hörður Axel: Barátta og samheldni sem skilaði þessum sigri

„Við spiluðum bara heilt yfir vel í þessum leik og þetta var heilsteypt frammistaða í 40 mínútur. Það var allt annað að sjá okkur frá því í tapinu gegn þeim í deildinni í vikunni og við sýndum það svo sannarlega hvað okkur langaði áfram í þessari keppni,“ Hörður Axel Vilhjálmsson, sagði þjálfari Keflavíkur, að leik loknum.

„Varnarleikurinn var frábær í seinni hálfleik. Við vorum ekki alveg nógu ánægðar með vörnina í fyrri hálfleik og gerðum smávægilegar breytingar. Það gekk vel upp og svo sýndu leikmenn bara kraft og ákefð í varnarleiknum sem skilaði sér. Leikmenn eiga mikið kredit skilið fyrir hvað þær lögðu mikið í leikinn,“ sagði Hörður Axel enn fremur. 

„Orkan í liðinu var góð bæði hjá leikmönum inni á vellinum og á varamannbekknum. Liðsheildin var sterk og við sýndum það í þessum leik hvað í liðinu býr þegar við stöndum saman. Það er alltaf gaman að taka þátt í bikarhelginni og við hlökkum til að spilar þar,“ sagði hann um framhaldið. 

Emil Barja: Svekkjandi hvað við vorum undir í baráttunni

„Við komum flatar inn í þennan leik en náðum góðum kafla í öðrum leikhluta og ég var að vona að við næðum að byggja á honum inn í seinni hálfleikinn. Það varð svo sannarlega ekki raunin og við náðum aldrei upp almennilegri baráttu og krafti í okkar spilamennsku,“ sagði Emil Barja, þjálfari Hauka, eftir leik.

„Þær unnu alla lausa bolta á vellinum, frákastabaráttuna á báðum endum vallarins og sýndu bara mikið meira hungur í það að sækja þennan sigur. Kannski héldum við að þetta myndi bara koma að sjálfu sér eftir sigurinn í deildinni en það á ekki að koma á óvart að Keflavík selji sig dýrt á heimavelli sínum,“ sagði Emil þar að auki. 

„Það er afar svekkjandi hvað við vorum undir í baráttunni, einkum og sér í lagi í bikarleik þar sem allt er undir. Það þýðir hins vegar ekki að svekkja sig á því of lengi og nú þurfum við bara að halda áfram að standa okkur vel í deildinni,“ sagði hann vonsvikinn en upplitsdjarfur. 

Emil Barja sagði að baráttuna hefði vantað hjá leikmönnum sínum. Vísir/Hulda Margrét

Atvik leiksins

Leikmenn Keflavíkur lögðu líkama og sál í verkefnið og langaði augljóslega mikið að halda áfram í bikarkeppninni. Þær köstuðu sér á alla bolta og fögnuðu í hvert skipiti sem liðsfélaginn spilaði góða vörn. Það smitaði svo í sóknarleikinn þar sem mikið sjálfstraust var við lýði. 

Stjörnur og skúrkar

Keishana Washington var í broddi fylkingar hjá Keflavík en hún skoraði 31 stig og var stigahæst á vellinum. Þar fyrir utan tók hún 10 fráköst og gaf átta stoðsendingar. 

Skotnýtingin hjá Keishönu var býsna góð en átta af níu tveggja stiga skotum hennar rötuðu rétta lið, þrjú af fimm þriggja stigum skotum og öll sex vítaskotin. 

Sara Rún Hinriksdóttir skoraði svo 21 stig og Thelma Dís Ágústsdóttir skilaði 17 stigum, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar á samherja sína. 

Hjá Haukum var Krystal-Jade Freeman fremst á meðal jafningja en hún var atkvæðamest hjá gestunum með 29 stig. 

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, þeir Sigmundur Már Herbertsson, Bjarki Þór Davíðsson og Einar Valur Gunnarsson, höfðu góð tök á þessum leik og skiluðu sínu starfi frá sér af stakri prýði. Þeir fá átta í einkunn fyrir sín störf. 

Stemming og umgjörð

Bæði lið voru rækilega studd af stuðningsmönnum en vel var mætt á þennan leik. Umgjörðin var til fyrirmynar hjá Keflvíkingum og ekkert upp á gestrisni heimamanna að klaga eins og vanalega. Góður andi á Sunnubrautinni í dag. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira