Íslenski boltinn

Blikarnir eru búnir að missa 34 mörk og 25 stoð­sendingar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samantha Smith, Birta Georgsdóttir og Andrea Rut Bjarnadóttir eru allar horfnar á braut og verða ekki með Breiðabliki í Bestu deildinni 2026.
Samantha Smith, Birta Georgsdóttir og Andrea Rut Bjarnadóttir eru allar horfnar á braut og verða ekki með Breiðabliki í Bestu deildinni 2026. Vísir/Anton Brink

Þrír af öflugustu sóknarleikmönnum Íslandsmeistara Breiðabliks í kvennafótboltanum eru horfnir af braut og reyna fyrir sér í atvinnumennsku. Besta lið Bestu deildar kvenna þarf því að fylla í stór skörð næsta sumar.

Í gær sögðu Blikar frá því að Andrea Rut Bjarnadóttir væri farin til Anderlecht í Belgíu og að Birta Georgsdóttir, besti leikmaður bestu deildar kvenna 2025, væri búin að semja við ítalska félagið Genoa.

Áður hafði Samantha Smith yfirgefið Breiðablik og samið við bandaríska félagið Boston Legacy.

Allar voru þær þrjár lykilmenn í Breiðabliksliðinu undanfarin tvö sumur, hjálpuðu Blikum að vinna Íslandsmeistaratitilinn tvö ár í röð og þrefalt sumarið 2025.

Framlag þeirra í sóknarleiknum síðasta sumar var líka ekkert smáræði eins og sést vel þegar tölfræði um mörk og stoðsendingar er skoðuð betur.

Birta Georgsdóttir varð næstmarkahæst og enn fremur í fjórða sæti í stoðsendingum. Hún skoraði 18 mörk og gaf 8 stoðsendingar en alls kom hún með beinum hætti að 28 mörkum sem var það næstmesta í deildinni.

Samantha Smith varð þriðja markahæst og enn fremur í ellefta sæti í stoðsendingum. Hún skoraði 12 mörk og gaf 6 stoðsendingar en alls kom hún með beinum hætti að 21 marki sem var það fjórða mesta í deildinni.

Andrea Rut Bjarnadóttir varð í öðru sæti í stoðsendingum með 11 slíkar og skoraði að auki fjögur mörk. Hún kom alls með beinum hætti að 15 mörkum sem var það níunda mesta í deildinni.

Samanlagt skoruðu þessar þrjár 34 mörk og gáfu 25 stoðsendingar og það er ljóst að nýir leikmenn þurfa að stíga fram í sóknarleik Blikanna á komandi sumri.

Það má heldur ekki gleyma miðjumanninum mikilvæga Heiðu Ragneyju Viðarsdóttur sem hefur einnig yfirgefið félagið en hún var kletturinn á miðju liðsins. Heiða hefur samið við sænska félagið Eskilstuna United.

Blikarnir halda þó enn markahæsta leikmanni sínum (Berglind Björg Þorvaldsdóttur, 23 mörk) og stoðsendingahæsta leikmanni sínum (Agla María Albertsdóttir, 18 stoðsendingar). Mikilvægi þeirra ætti jafnvel að vera enn meira í Bestu deild kvenna 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×