Innlent

„Svartir sauðir mis­noti réttindin“ og Reykja­vík ræðst í að­gerðir

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Ásta Bjarnadóttir segir að Reykjavíkurborg skrifstofustjóri Starfsþróunar og starfsumhverfis heldur utan um verkefni sem á að lækka veikindahlutfall hjá borginni. Björn Brynjúlfur Björnsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs  segir of algengt að opinberir starfsmenn misnoti réttindi sín. 
Ásta Bjarnadóttir segir að Reykjavíkurborg skrifstofustjóri Starfsþróunar og starfsumhverfis heldur utan um verkefni sem á að lækka veikindahlutfall hjá borginni. Björn Brynjúlfur Björnsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs  segir of algengt að opinberir starfsmenn misnoti réttindi sín.  Vísir

Starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur tekið fleiri veikindadaga síðustu þrjú ár en árin á undan. Stjórnendur telja þetta alvarlega þróun og hafa ákveðið að ráðast í sérstakar aðgerðir. Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs telur of algengt að fólk misnoti kerfið, sem bjóði líka upp á það.

Hátt veikindahlutfall hjá mörgum opinberum stofnunum hefur víða verið áhyggjuefni. 

Á síðasta ári voru 7,4 prósent starfsmanna Reykjavíkur frá vinnu á hverjum degi að meðaltali vegna veikinda. Mest voru þau á skóla- og frístundasviði og umhverfis- og skipulagssviði eða um átta prósent. Þá var hlutfallið 7,4 prósent á velferðarsviði. Veikindahlutfallið er hins vegar mun lægra á menningar- og íþróttasviði eða rúmlega fimm prósent.

Veikind hjá starfsfólki Reykjavíkurborgar eru algengari nú en fyrir nokkrum árum. Ákveðið hefur verið að ráðast í átak. Vísir/Hjalti

Borgin hefur ákveðið að ráðast í aðgerðir til að fækka veikindadögum og ætlar að byrja hjá sviðum þar sem veikindin eru mest. Þrír sérfræðingar munu starfa markvisst með stjórnendum að leiðum til að fækka fjarvistum vegna veikinda. Þegar hefur verið auglýst eftir sérfræðingi í viðverustjórnun á vefsíðunni Alfreð. 

Stytting vinnuvikunnar hafi ekki fækkað veikindadögum

Ásta Bjarnadóttir, skrifstofustjóri Starfsþróunar og starfsumhverfis, segir að byrjað verði á þeim sviðum þar sem veikindin eru hlutfallslega mest. 

„Við höfum áhyggjur af þessari þróun. Við höfum í nokkur ár verið með sérstakar heilsu- og viðverustefnur. Þrátt fyrir það hefur veikindahlutfallið hjá borginni verið ívið hærra síðustu þrjú ár en árin á undan,“ segir Ásta.

Veikindi hjá Landspítala og sveitarfélögum árið 2024.Vísir/Hjalti

Stytting vinnuvikunnar síðustu ár hafi ekki haft áhrif til lækkunar.

„Við höfum séð lækkandi álag starfsfólks með styttingu vinnuvikunnar en við höfum ekki séð veikindahlutfallið fara niður,“ segir Ásta.

Hún telur heldur ekki að hærra veikindahlutfall sé vegna myglu sem hefur fundist víða í húsnæði borgarinnar.  

„Eðli málsins samkvæmt þá vitum við ekki alltaf hver veikindi starfsmanna eru en við teljum ekki að mygla sé stór hluti af skýringu á hærra veikindahlutfalli en áður,“ segir Ásta.

Telur of algengt að kerfið sé misnotað

Viðskiptaráð hefur vakið athygli á að þrátt fyrir að vinnuvikan sé styttri á opinberum markaði en hinum almenna séu veikindi algengari á hinum fyrrgreinda. Þá hafi opinberir starfsmenn rýmri veikindarétt en á almennum vinnumarkaði sem hafi bein áhrif á veikindadaga. Björn Brynjúlfur Björnsson framkvæmdastjóri segir 

„Veikindaréttur opinberra starfsmanna er mun meiri en á almennum vinnumarkaði. Svona óhóflegur veikindaréttur veldur því að veikindahlutfallið verður hærra. Þetta er líka þróun erlendis, því ríkari sem rétturinn er því meira er fólk veikt. Við teljum þetta óeðlilegt því ef þú ert veikur mánuðum saman þá er þetta mál sem varðar heilbrigðis- eða örorkukerfið, en ekki vinnuveitendur,“ segir Björn. 

Ásta Bjarnadóttir segir eðlilegt að veikindi opinberra starfsmanna mælist meiri. 

„Á almenna markaðnum dettur fólk fyrr út af launaskrá af því veikindaréttindin eru minni og þess vegna mælast lægri veikindahlutföll þar,“ segir hún. 

Svartir sauðir á vinnumarkaði

Björn telur hins vegar að kerfið geti boðið upp á misnotkun.

„Það eru svartir sauðir sem misnota réttindin og þá er mikilvægt að réttindin séu ekki óhófleg. Við þekkjum mörg dæmi þess hjá opinberum stofnunum og í sveitarfélögum að starfsmenn sem hafa verið að vinna þar og fá veður af skipulagsbreytingum sem þeir eru ósáttir við fari í veikindaleyfi og jafnvel í ár.  Þá eru ekki einhver veikindi í gangi heldur ósætti við stjórnunarhætti eða eitthvað slíkt. Þetta er ekkert annað en misnotkun á þessum réttindum,“ segir Björn.

Líti jafnvel á veikindarétt sem frítökuréttindi

Viðskiptaráð vilji jafnframt láta kanna hvenær fólk tilkynnir veikindi.

„Við erum að reyna að fá upplýsingar um hvort fólk tilkynni frekar veikindi á mánudögum og föstudögum eða í byrjun mánaðar þegar réttindin raungerast. Af því við höfum heyrt frásagnir af þessu bæði hjá ríki og sveitarfélögum að á sumum vinnustöðum viðgangist sú menning að fólk líti á þessi réttindi sem frítökurétt og það er í hæsta máta óeðlilegt,“ segir Björn.


Tengdar fréttir

Kostnaður vegna veikinda nemur milljörðum

Heildarkostnaður Reykjavíkurborgar og Landspítala vegna veikinda starfsmanna síðustu þrjú ár nemur um átján milljörðum króna hjá hvorri stofnun. Veikindi í opinberum stofnunum eru algengari nú en fyrir nokkrum árum. Veikindahlutfall hjá Seltjarnarnesi lækkaði um fjórðung milli ára eftir að sveitarfélagið réðst í aðgerðir að sögn bæjarstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×