Erlent

Rússar senda her­skip til móts við olíu­skip elt af Banda­ríkjunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rússar eru sagðir hafa sent að minnsta kosti eitt herskip til móts við olíuflutningaskipið.
Rússar eru sagðir hafa sent að minnsta kosti eitt herskip til móts við olíuflutningaskipið. Getty/Yander Zamora

Stjórnvöld í Rússlandi eru sögð hafa sent að minnsta kosti eitt herskip til að mæta olíuflutningaskipi sem Bandaríkjamenn hafa veitt eftirför frá því að það freistaði þess að komast til hafnar í Venesúela.

Samkvæmt New York Times er flutningaskipið, áður kallað Bella 1 en nú skráð sem Marinera, statt á milli Íslands og Bretlands.

Skipið hóf för sína í Íran og var á leið til þess að sækja olíu í Venesúela þegar það var stöðvað af bandarísku strandgæslunni þann 21. desember. Bandaríkjamenn hugðust leggja hald á skipið þar sem það sigldi ekki undir fána en áhöfnin neitaði að hleypa þeim um borð og hélt inn á Atlantshaf.

Bandaríkjamenn eltu en áhöfnin er sögð hafa brugðist við eftirförinni með því að mála rússneskan fána á skipið. Þá var nafni skipsins breytt í gagnagrunnum í Rússlandi og rússnesk stjórnvöld fóru fram á að Bandaríkin létu af eftirförinni.

Allt kom fyrir ekki og í gær birti rússneski miðillinn RT myndskeið af bát strandgæslunnar, sem virðist hafa verið tekið af áhöfn Marinera.

Bandaríkin segja skipið tilheyra svokölluðum skuggaflota sem flytur olíu fyrir Rússland, Íran og Venesúela, í trássi við viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna og annarra ríkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×