Erlent

Óska eftir fundi með Rubio

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Rasmussen vill funda með Rubio.
Rasmussen vill funda með Rubio. Samsett/EPA

Utanríkismálanefnd Danmerkur hélt afar leynilegan fund í kvöld um samskipti landsins við Bandaríkin. Lars Lokke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur hefur óskað eftir fundi með utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Fundur nefndarinnar kemur í kjölfar orða Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og ráðamanna hans um mikilvægi þess að Grænland verði innlimað í Bandaríkin. Eftir innrás Bandaríkjanna í Venesúela, og handtöku forseta landsins, sagði Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að forsetinn stæði við orð sín. 

Því er mikil óvissa uppi í Danmörku um hvort forsetinn standi við orð sín sem varða Grænland.

„Við höfum komist að samkomulagi um að tíminn sé kominn til að óska eftir fundi með bandaríska utanríkisráðherranum,“ sagði Rasmussen í samtali við TV2

Ekki liggur fyrir hvenær fundurinn mun fara fram en Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands, segir að bæði Danmörk og Grænland hafi óskað eftir fundinum með Rubio.

„Þegar við óskum eftir fundinum er það vegna þess að við upplifum að hluti þessarar umræðu byggir á misskilningi á því hvað snýr upp og niður,“ segir Rasmussen.

Hann segir að Danir verði ekki við ósk Bandaríkjaforsetans um að fá Grænland. Aðspurður hvort hann treysti Trump segist hann treysta aðild Danmerkur að Atlantshafsbandalaginu.

„Auðvitað er þetta ekki eitthvað sem við getum orðið við og Grænland hefur enga löngun til að verða við því. Þetta er staðföst afstaða Dana. Við krefjumst þess að hún verði virt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×