Innlent

„Lítur út fyrir að að­eins eitt fram­boð hafi borist“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins í Valhöll.
Höfuðstöðvar Sjálfstæðisflokksins í Valhöll. Vísir/Einar Árnason

Allt lítur út fyrir að Hildur Björnsdóttir verði ein í framboði til oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Leiðtogaprófkjör var fyrirhugað 24. janúar en nú lítur út fyrir að ekkert verði af því.

Hildur Björnsdóttir hefur verið oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík síðan í kosningunum 2022 og borgarfulltrúi frá 2018. Hún gaf út fyrir nokkru að hún myndi sækjast eftir að leiða lista flokksins í komandi kosningum og síðustu vikur hefur Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður verið að íhuga slíkt hið sama.

Guðlaugur Þór gaf hins vegar út í morgun að svo yrði ekki og að hann myndi styðja Hildi sem oddvita næði hún kjöri.

Framboðsfrestur rann út í hádeginu og var rætt við Albert Guðmundsson formann Varðar, fulltrúafélag Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í hádegisfréttum Bylgjunnar.

„Eins og staðan er akkúrat núna lítur út fyrir að aðeins eitt framboð hafi borist. Nú tekur yfirkjörstjórn við og mun fara yfir málin og ganga úr skugga um hvort fleiri framboð hafi borist. Það þarf að fara yfir öll pósthólf og grandskoða málið. Í kjölfarið taka framboðin fyrir og úrskurða um lögmæti þeirra og mun gefa út endanlegan úrskurð um það í dag,“ sagði Albert í hádeginu.

Í nóvember var ákveðið á fundi Varðar að fara í leiðtogaprófkjör fyrir sveitarstjórnarkosningarnar en að kjörnefnd myndi stilla upp í önnur sæti listans. Nú lítur út fyrir að ekkert verði af fyrirhuguðu prófkjöri þann 24. janúar.

„Ef svo færi að hún [Hildur Björnsdóttir] yrði ein í framboði þá væri útséð að það verði ekki kosningar þann 24. janúar. Það rann út framboðsfrestur í kjörnefnd á hádegi og við munum ennþá þurfa að ganga til kosninga um það og skipa þá kjörnefnd. Sú nefnd tekur svo við og skipar listann í kjölfarið,“ sagði Albert í viðtali í hádeginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×