Innlent

Feiki­vinsæll og bóngóður galdra­karl kveður

Jakob Bjarnar skrifar
Guðmundur Oddur var sérfróður í myndmáli. Hann var ákaflega vinsæll maður. Goddur var harmdauði mörgum.
Guðmundur Oddur var sérfróður í myndmáli. Hann var ákaflega vinsæll maður. Goddur var harmdauði mörgum. vísir/anton

Guðmundur Oddur Magnússon, betur þekktur sem Goddur, prófessor emeritus í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands, lést um helgina í bílslysi á Biskupstungnabraut.

Goddur var sjötugur þegar hann lést, einn helsti sérfræðingur landsins á sviði myndmáls og hönnunar og einatt kallaður til af fjölmiðlum þegar meta þurfti myndræna framsetningu. Slíku kvabbi tók hann ætíð af stakri ljúfmennsku og ljóst má vera, til að mynda af viðbrögðum á Facebook, að hann var einstaklega vel liðinn og vinsæll.

Einstaklega bóngóður

Gunnar Smári Egilsson á Samstöðinni lýsir einmitt þessari hlið á Goddi, þessari einstöku ljúfmennsku sem einkenndu manninn.

„Ég renndi yfir samskipti okkar á messenger og e-mail þegar ég frétti af andláti Godds. Þau síðustu voru í haust, viltu koma í helgi-spjall? Endilega þegar flensan er búin og hvolparnir hennar Pippu eru komnir á legg.“

Mynd sem Gunnar Smári birti af Goddi, mynd sem hann fann á Instagram.

Og Gunnar Smári vitnar áfram í messenger:

„Geturðu komið og haldið hjá okkur fyrirlesturinn um innsæið sem þú varst með á Ted? Má biðja þig að búa til póstkort með hvatningu til fólks um að kjósa xJ? Ég gaf í skírnargjöf vísirós sem ég átti, sem þú gerðir með Bjarna, er hægt að setja eitthvað certificate aftan á svo drengurinn haldi ekki að þetta sé eftirprent þegar hann verður stór? Mundirðu vilja koma og halda fyrirlestur hjá SÁÁ um Palla flug og hans lífsspeki? Við erum að reyna að gefa út menningarblað og nokkrir myndlistarmenn hafa boðist til að hanna auglýsingar fyrir fyrirtæki og stofnanir, svolítið eins og rafskinna eða eitthvað í þá veru; viltu vera með? Við erum að gera stutt myndbönd um hvaða áhrif það hafði á fólk að hætta að drekka, viltu koma og tala smá inn í myndavél?“

Gunnar Smári segir að alltaf hafi Goddur sagt já og hann segist „hálfskammast“ sín þegar hann fer yfir þessi samskipti; „ég sífellt suðandi eitthvað í nafni heilags málstaðar. Svo hittumst við á Klambratúni eða Geirsnefi, ég með Mosa, sem var með ADHD from Hell, og hann með Pippu, sem var stríðin og þjófótt, stal boltum og prikum af öðrum hundum og vildi alls ekki sleppa. Goddur yppti öxlum, svona var Pippa og maður kennir ekki gamalli tík að gefa. Aumingja Pippa að missa sinn sálufélaga.“

Fjölmörgum harmdauði

Gunnar Smári segist samhryggjast öllum vinum og vandamönnum Godds, sviplegt fráfall hans hljóti að vera þeim áfall.

„Ég verð að bíða dálítið eftir botninum í nokkrum sögum sem Goddur var að segja mér með hléum, til dæmis af kommúnisma á Akureyri um og eftir 1980, áhrifum edrúmennsku á feril listamanna og annað sem hann fræddi mig um þegar við hittumst. Goddur var kennari. Ein spurning kveikti 45 mínútna svar. Nokkrir hittingar voru kúrs. Ef hann hefði gefið diplómu væru þær á veggjum margra. Takk fyrir mig. Myndina fann ég á Instagram.

Goddur var þannig fjölmörgum mikill harmdauði. Vísir fór yfir feril hans í andlátsfregn. 

Þegar ótíðindin spurðust brast á með holskeflu minningarbrota en Goddur snerti furðu marga á löngum ferli. Skarðið sem hann skilur eftir sig er mikið. Vera Sölvadóttir kvikmyndaleikstjóri var samstarfskona hans í fjölmörgum verkefnum og lætur myndir sem hún tók af Goddi tala sínu máli: „Elsku hjartans Goddurinn minn,“ segir hún og með fylgir hjarta:

Sveinn Rúnar Hauksson heimilislæknir er harmi sleginn:

„Harmafregn. Goddur fórst af slysförum í fyrradag. Fyrir aðeins örfáum dögum áður hafði ég hitt hann að máli, hressan og skemmtilega að vanda. Innileg samúð til aðstandenda og ófárra vina. Mikill missir.“

Sérfróður í myndrænni miðlun

Og Sveinn vitnar í minningarorð sem finna má á umræðuvettvangi um friðar- og afvopnunarmál, Samtök herstöðvarandstæðinga:

„Sú harmafregn hefur borist að lista- og fræðimaðurinn Guðmundur Oddur Magnússon, betur þekktur sem Goddur, hafi látist í bílslysi þann 3. janúar. Goddur var einn helsti sérfræðingur landsins um sögu myndrænnar miðlunar og hafði sérstakan áhuga á pólitískri myndlist.“

Þá segir að vegna þeirra rannsókna sinna hafi hann verið tíður gestur á Skjala- og heimildasafni Samtaka hernaðarandstæðinga í Friðarhúsi, þar sem finna má fjölda veggspjalda, barmmerkja, kápumynda og annars efnis tengt sögu friðarbaráttunnar, en íslenskir friðarsinnar hafa alla tíð haft á að skipa frábæru myndlistarfólki. Var hann einnig iðinn við að vekja athygli nemenda sinna í Listaháskólanum á safnkostinum.

„Goddur var meðal kaflahöfunda í bókinni „Gengið til friðar: Saga andófs gegn herstöðvum og vígbúnaðarhyggju 1946-2006“, sem út kom fyrir rúmu ári. Kafli hans nefndist „Myndmál hernaðarandstæðinga og friðarsinna“ og hafði að geyma mikið myndefni úr baráttunni auk fræðilegra útlegginga.

Samtök hernaðarandstæðinga sjá á eftir öflugum fræðimanni og góðum vini. Aðstandendum eru vottaðar innilegar samúðaróskir.“

Mikill fræðari og vildi vel

Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndaleikstjóri minnist Godds þegar hann rölti yfir í Náttúrugalleríið á Laugarnestanga, að hann hafi veitt innblástur í litskrúðugan félagsskap. 

Og Tolli Morthens minnist Godds einnig. Þetta hafi verið harmafregn og að þeir hafi þekkst vel.

„Leiðir okkar lágu saman seinni hluta sjöunda áratugarins þegar ég var að byrja í MHÍ. Við gerðum margt saman, sýndum saman, sungum saman, lékum okkur saman og alltaf var gaman hjá okkur. Hann var ótrúlega mikill fræðari og hafði getu og ánægju af því að stækka sjóndeildarhringinn hjá manni og draga gluggatjöldin frá. Guðmundur var góður maður og vildi vel, flinkur myndlistarmaður og var alltaf með einhver járn í eldinum einn eða með öðrum. Við áttum líka góða samleið sem menn „án áfengis“ en þar var hann líka sem annars staðar upp ljómaður og brosandi.“

Mynd úr safni Veru Sölvadóttur. Hún segir hann hafa verið einstaklega photogenískan einstakling.vera sölvadóttir

Tolli segir frá því að Goddur hafi á efri árum eignast hundinn Pippu og hafi þau verið flott föruneyti, en þeir hittust oft á Geirsnefi.

„Ég sakna Guðmundar en var búinn að vera á leiðinni til hans með pælingar um sögu svettsins á Íslandi en Guðmundur var alla tíð ástríðufullur svettari og þekkti þá sögu vel.“

En nú er Goddur farinn og þá finni menn, þegar fólk er tekið í burtu á þetta sviplegan hátt, hversu mikið situr eftir og hve nærvera þeirra er sterk. „Gamli vinur, blessuð sé minning þín.“

Ráðagóður og gjafmildur

Og minningarnar um Godd hrannast inn á Facebook. Einn þeirra sem minnast Godds er Axel Jón Ellenarson sem segir frá því að þeir hafi fyrst hist heima hjá Palla flug og töluðum um alkóhólisma, hinn mikla alheimsanda og andlega vakningu.“

Axel Jón segir Godd vitran mann, með djúpt innsæi, andlega vakandi og í sterkum tengslum við eitthvað innilega gott og satt.

„Það sem oft er kallað sannleikur. Það var alltaf taug á milli okkar eftir þessi kynni. Ég gat líka leitað til hans þegar ég var að hanna nýtt dagblað rétt eftir aldamótin síðustu og rölti með skyssur til hans upp í mynd og hand á efstu hæðina í Skipholti. Vann stutt þar frá. Að koma þangað inn var ævintýri, allir veggir þaktir á skrifstofu hans af myndlist og plakötum.“

Goddur hvatti Axel Jón til að sækja um í skólann og læra grafíska hönnun en Axel Jón sinnti því ekki, hann þurfti að sjá lítilli fjölskyldu farborða. En reglulega hitti hann Godd og það var ávallt gefandi.

„Ég bar djúpa virðingu fyrir honum, bæði lífsskoðunum hans og hvernig hann nálgaðist allt út frá einhverjum sönnum kjarna innra með sér sem hann svo speglaði með svo mikilli gjafmildi þegar hann talaði um myndlistina, táknfræðina og formin.“

Mynd sem Axel Jón birti með greinargóðum minningarorðum sínum.jónatan garðarsson

Goddur kom víða við og eitt sinn þegar Axel Jón var framleiðslustjóri á Viðskiptablaðinu og var að hanna nýja forsíðu kallaði hann Godd til, sem var auðsótt mál.

„Ég hengdi upp fimm útgáfur af forsíðum sem ég var búinn að teikna. Hann benti á eina þeirra og ég held að sú forsíða sé enn notuð. Hann gaf mér alltaf góð ráð, held að hann hafi fundið í mér þennan almenna vanmátt sem býr djúpt innra með mér. Hann var mér alltaf svo góður og þó margar ljósmyndir af honum sýni hann nokkuð alvarlegan í fasi er minning mín um Godd að hann mætti mér alltaf brosandi, þó ár liðu á milli síðan síðast.“

Mikill hundavinur

Harpa Ra býður upp á fallega svipmynd af Goddi af Geirsnefi:

„Við Máni hugsum innilega og djúpt til ykkar Pippu, elskulegi Goddur. Hjartans- og sálarþakkir fyrir allar stundirnar í „Grænuhlíð“, gamla strætóskýlinu á Geirsnefinu. Þar var spjallað um heima og geima og hundarnir nutu sín í nærveru hvors annars. Ég vissi og vissi allt um hjartastöðu þína jafnt í eiginlegri mynd sem og í óeiginlegri, þú varst sterkur og þrautseigur í gegnum það verkefni – alltaf mættur á morgunhittinginn góða.

Þessi mynd fylgdi kveðju Hundavinafélagsins.

Fljúgðu hátt um himnadyr elsku vinur og samferðarmaður og vertu svo elskulegur að vanda og hjálpaðu okkur hinum hér niðri síðasta spölinn - þú veist hvað ég á við.“

Og Jósa Þorbjarnar minnist kærs vinar fyrir hönd Hundasamfélagsins:

„Við hittum hann reglulega á Geirsnefinu með uppáhaldið sitt, hana Pippu. Það verður tómlegt að sjá þau ekki saman aftur.“

Ógleymanlegur

Raunar er magnað hversu margir minnast Godds. Brynja Pétursdóttir dansari er ein þeirra en hún útskrifaðist úr grafískri hönnun frá LHÍ 2008, undir leiðsögn Godds.

„Árgangurinn okkar var einstaklega fjölbreyttur, í raun hilariously fjölbreyttur, og Goddur blés í okkur anda og eldmóð í allar þær áttir sem við leituðum. Lokaverkefnið mitt var samruni dans og leturs í videoverki sem hann leiðbeindi mér í gegnum og leyfði þessu hliðarspori við námið að fara í gegn á eigin forsendum. Hliðarsporin voru velkomin undir hans einstaka auga, þau voru skoðuð, greind og þeim leyft að vera til í þeim blæbrigðum sem okkur hugnaðist - for better or worse.“

Brynja gleymir seint sumum uppákomunum og hvernig Goddur rammaði inn það að vera listamaður.

„Þá meina ég auðvitað hvernig hann galopnaði hugmyndina um að hunsa algjörlega rammann, alltaf með razor sharp gagnrýnni hugsun og leit að raunverulegum gæðum.

Sumir hafa áhrif langt inn í framtíðina og opna dyr í hausnum á manni sem hefðu annars ekkert opnast. Þetta er mikill missir og hann skilur eftir sig stórt tómarúm, en mikið er ég þakklát fyrir að hafa kynnst honum.“

Meistari uppstillinganna

Irma Erlingsdóttir prófessor minnist Godds sem hjálpaði til við að hengja upp listaverk í nýmálaðri íbúð hennar og Geirs heitins Svanssonar eiginmanns hennar. Goddur var ómetanlegur við það verk.

„Um kvöldið sendi ég Goddi skilaboð til að þakka fyrir og þá hafði Geir, í hæglyndi sínu og þrátt fyrir sín miklu veikindi sem skertu mjög hans frjóu hugsun sett fram við mig túlkun á því hvernig verkum á einum af veggjunum var fyrirkomið. Hann var þá nær alveg hættur að tala í viðurvist fleiri,“ skrifar Irma og heldur áfram:

„Fyrir neðan fjórar sjálfsmyndir af landsfrægum listamanni hafði Goddur sett litið verk eftir frábæra listakonu sem var í gylltum ramma og er ljósmynd af hunangsflugu í gluggakistu. Goddur hafði áður valið henni gylltan rammann eftir að ég ráðfærði mig við hann. Um þessa uppsetningu sagði Geir: „gullfótur“. Og því svaraði Goddur svona: „Geir er myndlæs - auðvitað er þetta gullfótur“.“

Irma segir það forréttindi að hafa kynnst þessum góða manni og dætur hennar minnist einnig heimsókna hans í húsakynni á Seyðisfirði þar sem hann hafði oft sumardvöl með öðru skapandi fólki.

Töfraandi þessa lands

Katrín Oddsdóttir lögmaður segir Godd einn af „töfraöndum“ þessa lands.

„Hugsjónamaður með svo tæran prakkaraglampa í auga að hann mátti spotta úr órafjarlægð. Hann hannaði þetta fallega veggspjald af aðfaraorðum nýju stjórnarskrárinnar og var alltaf til í að leggja hönd á plóg í þeirri baráttu, sem og öðrum réttlætismálum, að minni reynslu,“ segir Katrín og birtir mynd af veggspjaldinu.

Veggspjaldið góða.

„Einhvers staðar á ég svo fallega mynd af Goddi með krosslagðar fætur undir (þá) myndarlegri bumbunni sem skeggið hvíta flæddi yfir eins og foss. Hann er skælbrosandi í gömlum rauðum antíksófa í heimsókn hjá mér í einhverju dásamlegu plotti okkar. Ég elska þessa mynd því hún sýnir svo skýrt aldursleysið sem einkenndi Godd.“

Katrín vottar öllu fólki Godds sem og dýrum samúð sína og segir að samfélagið sé fátækara eftir að sálir sem þessar hverfi á braut.

„Baráttan heldur áfram og einhvers staðar glottir stórkostlega sálin hans Godds og mundar sinn einstaka sköpunarkraft til góðs.“

Þungbær dánarfregn

Hörður Lárusson hönnuður segir dánarfregnina þungbæra.

„Það hefur hinsvegar verið afskaplega fallegt að lesa kveðjur úr öllum áttum frá fólki sem hann snerti og ég er búinn að sjá marga tala um að þau eigi honum allt að þakka að hafa orðið að þeim hönnuðum sem þau eru í dag.“

Hörður segist klárlega einn af þeim, Goddur hafi verið prófessor hans í náminu og einn hans stærsti kostur sem kennara var að sjá hæfileikana í fólki; „jafnvel þegar það var á sviði hönnunar sem hann fór sjálfur algjörlega á skjön við. Ég á fleiri en nokkrar sögurnar þar sem hann studdi mig, barðist fyrir hlutum sem ég var að gera (stundum án þess að maður vissi … fyrren eftirá) og einfaldlega bara skildi mann.“

Og undanfarið hafi Goddur gefið sér tíma og aðstoðað við upplýsingar og efni fyrir bók sem Hörður er að vinna, og það hafi verið ómetanlegt.

„Það er sá Goddur sem ég held að við sem vorum svo heppin að þekkja hann tengjum öll við. Ef hann gat sagt sögur, frætt mann eða sýnt eitthvað af því ómetanlega efni sem hann hafði sankað að sér í gegnum árin … þá lét hann ekki frá sér tækifærið. Goddur passaði alltaf að maður vissi þegar hann mætti á svæðið … og hann var jafn góður að hverfa án þess að maður vissi af. Hann var bara allt í einu farinn – svolítið eins og núna,“ skrifar Hörður í lýsandi færslu á Facebook: „Góða ferð elsku Goddur og takk fyrir okkur.“

Snerti líf svo margra

Frosti Gnarr óskar þess að Goddur hvíli í friði, hann hafi verið sér mikilvægur að svo mörgu leyti og hann vildi óska þess að þeim hefði gefist meiri tími saman.

„Ég er líka þakklátur fyrir að hafa fengið að deila með þér kennslustofu og vinnustofu, ég er þakklátur fyrir kaffibollana, engifersodastreamkokteilana, galdrana, svettin, hlátursköstin, fúsballið, mýtólógíuna, ábendingarnar, hvatninguna og stóru knúsin,“ skrifar Frosti og segir menninguna á Íslandi hafa misst eina af sínum stærstu og skýrustu röddum.

Katrín Ólína, deildarforseti Hönnunardeildar, sendir einnig kveðju á Facebook og birtir mynd af sér, Goddi og Lilju Pálmadóttur athafnakonu.

„Elsku Goddur, mikill kennari og kær vinur, hefur kvatt okkur í byrjun árs, á ísköldum en fallegum degi - og fullu tungli. Ég set hér inn mynd sem mér þykir ákaflega vænt um en hún var tekin í einum af mörgum eftirmiðdagsbíltúrum sem við Lilja Pálmadóttir fórum með meistaranum á síðustu árum. Þar var farið beint í kjarnann, en það var alltaf stutt í hláturinn.“

Og Katrín segir það sem fáir mótmæla: „Hann snerti líf ótal margra.“

Með skemmtilegri mönnum

Og þeirra á meðal er Stefán Pálsson sagnfræðingur:

„Það var áfall að fregna að Goddur hefði látist í bílslysinu í gær. Hann var með skemmtilegri mönnum og gaman var að vinna með honum að kúnstugu verkefni fyrir nokkrum árum þegar Símaskráin var í síðasta sinn gefin út á prenti. Goddur hannaði útlitið og sjálfur tók ég saman mola um sögu símaskrárinnar í íslensku samfélagi.“

Og Stefán birtir eftirtektarverða ljósmynd af þeim tveimur, en ógetið er þess að Goddur var sjálfur einstaklega myndrænn útlits. Viðar Eggertsson leikhúsmaður lýsir honum einmitt sem galdrakarli, jarlinum í Listagili.

„Það var haustið 1993 sem ég var nýtekinn við sem leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar og fékk leigða litla turníbúð í Listagilinu nýopnaða. Þar á fleti var fyrir Goddur meistarinn í grafískri hönnun í hrárri og glæsilegri íbúð og vinnustofu á jarðhæð í sömu húsalengju og vorum við um tíma einu íbúarnir.“

Viðar lýsir því að meistarinn Goddur hafi tekið því vel þegar Viðar óskaði eftir því að Goddur hannaði fyrsta auglýsingapésann sem LA gaf út fyrir komandi leikár.

„Slíkri nýjung var tekið með nokkuð miklum efasemdum af sumum samstarfsmönnum mínum, svo við Goddur fengum fleiri listastofnanir til að vera með í bæklingnum. Hann varð glæsilegur í allri sinni naumhyggju, svo ekki yrði prentun hans of dýr. Þarna var hann í essinu sínu, því honum fannst fátt skemmtilegra en að storka viðteknum gildum. Við áttum þar algörlega samleið!“

Galdrakarl og meistari

Og Viðar lýsir þessum furðum:

„Þá var tölvuvinnsla á slíku efni frekar framandi, alla vega mér, en meistarinn sat við fyrir framan skjáinn og mörg kvöldin sat ég með honum og dáðist að honum galdra fram allskyns furður við sköpunina. Fyrir mér var hann galdramaður - enda leit hann seinna æ meir út sem slíkur.“

Og Viðar talar fyrir munn margra þegar hann segir: „Takk fyrir allt, meistari og galdramaður, Guðmundur Oddur Magnússon!“

Nemendur hans keppast við að lofa Godd og prísa. Sigurður Oddsson  er gott dæmi:

„Í dag finna margir fyrir missi að einstökum manni, meiriháttar karakter sem var larger than life á hátt sem er sjaldgæfur í litlum samfélögum eins og okkar, sérstaklega í míkrósamfélagi eins og hönnun og list á Íslandi. Goddur var ekkert minna en hornsteinn hönnunar á þessu landi. Minning hans og áhrif munu lifa áfram í okkur, því sem við gerum og því sem við kennum áfram.“

Frábær kennari

Sigurður segist bókstaflega eiga Goddi sinn feril að þakka, hann hafi hleypt honum inn í LHÍ á möppu sem hann sjálfur hefði aldrei tekið til greina.

„Hann sá eitthvað í mörgum þetta árið sem aðrir hefðu ekki séð og árgangurinn var dásamlegt samansafn óvenjulegra karaktera og árin í skólanum voru ómetanleg. Goddur trúði á að synda á móti straumnum og elfdi þann eiginleika í okkur öllum. Goddur elfdi í okkur keppnisskap og metnað, og hvatti okkur til að fara okkar eigin leiðir, út fyrir það augljósa og auðvelda.“

Goddur var frábær kennari í fyrirlestrum um lista- og hönnunarsögu:

„Þar liðu 3-4 klukkustundir á örskotsstundu meðan hann sagði sögur af impressionistum, arts and crafts, kúbistum og post-constructivistum eins og þeir væru rokkstjörnur. Hann lét okkur líða eins og við værum framhald af sömu tímalínu. Hann gaf manni í leiðinni masterclass í storytelling, listina að kveikja áhuga og meðbyr með hugmyndum með því að segja sögur á áhrifaríkan hátt með orðum og myndum.“

Hér hafa aðeins brot dæma verið tíunduð. Vísir vill jafnframt þakka Guðmundi Oddi fyrir hans framlag í gegnum tíðina, sem seint verður ofmetið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×