Veður

Appel­sínu­gular og gular við­varanir á að­fanga­dag

Atli Ísleifsson skrifar
Svona verður staðan á hádegi á aðfangadag.
Svona verður staðan á hádegi á aðfangadag.

Veðurstofan hefur gefið út gular og appelsínugular viðvaranir fyrir stærstan hluta landsins á næstu dögum. Appelsínugular viðvaranir verða í gildi á Vestfjörðum og á norðanverðu landinu vegna storms eða roks á aðfangadag.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Gular viðvaranir taka fyrst gildi á morgun, Þorláksmessu, á norðvestan-, vestan- og sunnanverðu landinu vegna talsverðrar eða mikillar rigningar. Norðantil taka gular viðvaranir sömuleiðis gildi vegna sunnan hvassviðris eða storms.

Á aðfangadag eru svo gular viðvaranir víða í gildi, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu og austantil, vegna hvassviðris, en víða annars staðar einnig vegna rigningar.

Á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Miðhálendi taka appelsínugular viðvaranir gildi að morgni aðfangadags og gilda þær til klukkan þrjú síðdegis sama dag, en til miðnættis á Miðhálendi. Spáð er sunnan 18 til 25 metrum á sekúndu og rigningu en vindhviður munu geta farið yfir 40 metra á sekúndu við fjöll. „Hættulegt að ferðast vegna vinds, sérílagi fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi. Lausamunir eru líklegir til að fjúka og staðbundið foktjón mögulegt,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Aðfararnótt jóladags eru svo gular viðvaranir í gildi á vestan og norðanverðu landinu til morguns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×