Erlent

Gerðu um­fangs­miklar á­rásir gegn ISIS í Sýr­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Flugmaður undirbýr A-10 herþotu fyrir flugferð á umsjónarsvæði CENTCOM.
Flugmaður undirbýr A-10 herþotu fyrir flugferð á umsjónarsvæði CENTCOM. AP/Flugher Bandaríkjanna

Bandaríkjamenn gerðu í gær árásir á um sjötíu skotmörk sem talin eru tengjast starfsemi Íslamska ríkisins í Sýrlandi. Markmiðið var að hefna fyrir dauða tveggja bandarískra hermanna og túlks í árás í síðustu viku.

Í tilkynningu frá forsvarsmönnum herafla Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum (CENTCOM) segir að til árásanna hafi verið notast við herþotur, þyrlur og stórskotalið og segjast þeir hafa notast liðsinnis herafla Jórdaníu til árásanna.

Þá segjast þeir hafa notað rúmlega hundrað sprengjur til árásanna sem hafi beinst gegn innviðum ISIS-liða og vopnageymslum þeirra.

Brad Cooper, sem stýrir CENTCOM, segir árásirnar eiga að koma í veg fyrir að ISIS-liðar geti kvatt til árása gegn Bandaríkjamönnum og í Bandaríkjunum. Haldið verði áfram að elta uppi hryðjuverkamenn sem vilji skaða Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra.

Trump sagði frá árásunum í færslu á Truth Social í gær en þar sagði hann árásirnar njóta stuðnings nýrra stjórnvalda í Sýrlandi. Þá sagði hann að árásirnar fælu í sér skilaboð til allra hryðjuverkamanna sem ætluðu sér að gera árásir á Bandaríkjamenn eða hóta þeim.

Forsetinn sagði að þeim yrði svarað með umfangsmeiri árásum en þeir hefðu nokkru sinni upplifað áður.

Donald Trump og Pete Hegseth tóku á dögunum á móti líkum þriggja manna sem skotnir voru til bana í Sýrlandi.AP/Julia Demaree Nikhinson

Bandarískur embættismaður sem ræddi við AP fréttaveituna segir von á frekari árásum gegn ISIS í Sýrlandi.

Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sló á svipaða strengi og Trump og sagði í færslu á X í gær að árásirnar mörkuðu ekki upphaf nýs stríðs, heldur væri um hefndaraðgerð að ræða. Ríkisstjórn Trumps myndi aldrei hika þegar kæmi að því að vernda Bandaríkjamenn.

Nýliði skaut á hermenn

Þann 13. desember sat meintur ISIS-liði fyrir bandarískum hermönnum í herstöð í Palmyra í Sýrlandi. Árásarmaðurinn var nýliði í stjórnarher Sýrlands og skaut tvo bandaríska hermenn og túlk af írökskum uppruna til bana og særði tvo hermenn til viðbótar.

Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni en bandarískir embættismenn hafa bent á Íslamska ríkið og hafa ráðamenn í Sýrlandi tekið undir það. Árásarmaðurinn er ekki endilega talinn hafa verið meðlimur í ISIS, heldur hafi hann þess í stað laðast að málflutningi hryðjuverkasamtakanna.

Í gegnum árin hafa fjölmargir menn gert árásir víðsvegar um heim í nafni Íslamska ríkisins, án þess þó að vera meðlimir í samtökunum.

Eins og þekkt er lögðu vígamenn Íslamska ríkisins undir sig stóra hluta Íraks og Sýrlands sumarið 2014. Í september 2014 var áætlað að yfirráðasvæði ISIS væri um 210 þúsund ferkílómetrar, eða svipað stórt og Bretland. Enn átti yfirráðasvæði þeirra eftir að stækka.

Bandaríkjamenn og aðrir tóku þá höndum saman til að berjast gegn ISIS og voru gerðar umfangsmiklar loftárásir gegn ISIS-liðum auk þess sem hermenn voru sendir til bæði Íraks og Sýrlands, bæði til að aðstoða heimamenn við baráttuna og til að berjast beint gegn ISIS-liðum.

Árið 2019 lýstu Bandaríkjamenn því svo yfir að Kalífadæmi ISIS heyrði sögunni til.

Það þýddi þó aldrei að hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamskt ríki hafi verið upprætt. Vígamenn ISIS hafa síðan þá haldið til í skuggunum og haldið árásum sínum gegn óbreyttum borgurum og hermönnum áfram í bæði Írak og Sýrlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×