Innlent

Nauð­syn að skýra betur hvort eða hve­nær læknar megi rjúfa þagnar­skyldu

Lovísa Arnardóttir skrifar
Steinunn Þórðardóttir verður vitni að ofbeldi gegn öldruðum daglega. Hún kallar eftir því að staða þeirra verði skoðuð með tilliti til þagnarskyldu lækna.
Steinunn Þórðardóttir verður vitni að ofbeldi gegn öldruðum daglega. Hún kallar eftir því að staða þeirra verði skoðuð með tilliti til þagnarskyldu lækna. Vísir/Arnar

Steinunn Þórðardóttir formaður Læknafélagsins kallar eftir því að þagnarskylda lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks verði skýrð frekar og sérstaklega með tilliti til fólks í viðkvæmri stöðu, eins og fólks með heilabilun. Hún segir málið flókið og virða þurfi sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga og tryggja að allir geti leitað sér læknisþjónustu án ótta við að lögregla verði kölluð til.

Steinunn segir þagnarskyldu mikið rædda meðal lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks núna en tilefnið er dómur yfir Margréti Höllu Löf í vikunni. Hún var dæmd fyrir manndráp fyrir að hafa drepið föður sinn og stórfellda og sérstaklega hættulega líkamsárás gegn móður sinni. Báðir foreldrar hennar höfðu fyrir þessa árás oft leitað til lækna sem margir höfðu áhyggjur af ofbeldinu sem þau voru beitt. Foreldrar hennar vildu þó ekki að málið yrði tilkynnt eða leitað til lögreglu og kom fram í dómi að þau óttuðust viðbrögð dóttur sinnar og annarra.

„Það eru einmitt ýmis mál, ekki bara þetta gríðarlega sorglega mál, sem að verða þess valdandi að við upplifum ákveðna óvissu varðandi einmitt hvenær við megum rjúfa þagnarskylduna og hvenær ástæður séu það brýnar,“ segir Steinunn sem var til viðtals í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Steinunn segir lög um heilbrigðisstarfsmenn frá 2023 nokkuð óskýr hvað þetta varðar. Þar hafi átt að taka af vafa en það tekist illa.

Sitji uppi með loðna löggjöf

„Okkur finnst við enn þá sitja uppi með mjög loðna löggjöf,“ segir Steinunn sem las svo upp úr lögunum þann kafla sem fjallar um ofbeldi í nánu sambandi, eða heimilisofbeldi.

„Enn fremur er heilbrigðisstarfsmanni heimilt, og takið eftir þessu, að beiðni sjúklings, það er alveg skýrt þar, að beiðni sjúklings, að tilkynna til lögreglu heimilisofbeldi eða ofbeldi í nánu sambandi sem ógnað getur lífi eða heilsu sjúklings. Í slíkum tilvikum er heimilt að miðla til lögreglu almennum persónuupplýsingum sjúklings, upplýsingum um áverka og svo framvegis,“ segir Steinunn og að það sé alveg skýrt að læknar geti ekki brotið þagnarskyldu nema að beiðni sjúklings.

Þolendur heimilisofbeldis eiga þó oft erfitt með að kalla eftir slíkri aðstoð og Steinunn segir þetta afar flókið. Alþjóðlega sé þetta til umræðu og þá sérstaklega skylda starfsfólks til að láta vita ef eitthvað er þetta alvarlegt. Þá verði í þessari umræðu einnig að líta til bæði trúnaðarskyldu við sjúklinga og sjálfsákvörðunarréttar þeirra.

Hætta á að fólk leiti sér ekki læknisaðstoðar

„Þannig að ef þú ert fullorðin, sjálfráða manneskja og þú leitar læknis vegna áverka og þarft læknisaðstoð, og þú vilt alls ekki að læknirinn tali við lögreglu, þá er talið að almennt eigi þinn sjálfsákvörðunarréttur að vega þarna þyngra vegna þess að ef það er þannig að læknum beri að tilkynna óháð vilja sjúklings, þá er hætta á því að viðkomandi sjúklingur leiti sér ekki aðstoðar vegna áverka,“ segir Steinunn.

Sjúklingar óttist að lögregla fari sjálfkrafa í málið.

„Þetta er hin hliðin og það er mikilvægt að hafa þetta í huga en auðvitað eru aðstæður alls konar og þetta er ofboðslega erfiður veruleiki fyrir heilbrigðisstarfsfólk að lifa og hrærast í,“ segir hún og að starfsfólk hafi oft miklar áhyggjur þegar þessar aðstæður koma upp og vilji grípa inn í.

Steinunn segir annað gilda um börn, þau séu ósjálfráða og háð öðrum. En í tengslum við það vilji hún þó vekja athygli á erfiðri stöðu eldra fólks sem búi við heilsubrest, eins og heilabilun, sem valdi því að þau séu mjög háð öðrum. Þau séu afar útsett fyrir ofbeldi og mögulegri misnotkun. Hún segir ekkert raunverulegt skjól fyrir þetta fólk í lögunum í dag.

„Ekki, eins og fyrir börnin. Það er alveg skýlaust að við eigum að tilkynna ef við teljum að barn sé í hættu. En eldri einstaklingur sem er öðrum háður vegna veikinda, er hrumur, getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Við megum í rauninni ekki grípa inn í svoleiðis mál eins og lögunum er háttað í dag.“

Steinunn telur að það þurfi að skýra þetta betur í lögum og bendir á að í Bretlandi hafi verið farin sú leið að skilgreina þannig að ef sjúklingur sé sökum sjúkleika eða heilabilunar, öðrum háður, að þá gildi aðrar reglur heldur en um sjálfráða fullorðna einstaklinga.

Kallar eftir umræðu og aðgerðum

Steinunn kallar inn í þessa umræðu eftir röddum þeirra sem vinna í þágu þeirra sem hafa þolað heimilisofbeldi.

„Ég myndi vilja vita hvað þeim aðilum finnst um þennan vinkil sem ég var að tala um áðan, að læknum beri skylda til að brjóta trúnað við það fólk undantekningarlaust. Hvort að það sé eitthvað sem þeim myndi hugnast. Ég myndi vilja vita það fyrst. Vegna þess að það má ekkert koma í veg fyrir að þú leitir til læknis ef þú þarft á læknisaðstoð að halda,“ segir hún og að það fólk í slíkri stöðu verði að geta treyst á að lögregla sé ekki kölluð til ef það vill það ekki.

„Því að þetta er fullorðin manneskja sem er sjálfráða þannig að mér finnst þetta flókið,“ segir hún og að í þessu samhengi þurfi líka að ræða hvort að það eigi að tilgreina, til dæmis, hvort heilbrigðisstarfsfólk geti tilkynnt þegar ofbeldið er orðið sérstaklega alvarlegt.

Álag og umönnunarbyrði geti leitt til ofbeldis

Hún segir þetta sérstaklega erfitt hjá eldra fólki og óttast að þessum tilvikum muni fjölga.

„Það er mikil umönnunarbyrði á mörgum aðstandendum. Kerfið er ekki að sinna þessum málaflokki nógu vel. Það er auðvitað áhættuþáttur fyrir ofbeldi ef að aðstandendur eru undir miklu álagi og kerfið er ekki að hlaupa undir bagga,“ segir hún og að það séu engar leiðir til að koma þessu fólki til bjargar.

Steinunn starfar sem öldrunarlæknir og segist sjá þetta daglega í sínu starfi. Einnig sé lyfjum reglulega stolið af fólki, fólk sé vanrækt og ekki flutt á hjúkrunarheimili vegna þess að það býr í íbúð sem einhver annar vill búa í með viðkomandi. Hún segist líka verða vitni að fjárhagslegu ofbeldi og það séu ýmsar birtingarmyndir.

Hún segir þessi mál geta verið hryllilega flókin og það þurfi að vera miklu skýrara á hvaða tímapunkti læknar eða annað heilbrigðisstarfsfólk getur rofið þagnarskylduna.

„Við sem samfélag þurfum að koma okkur saman um það hvernig okkur finnst þetta eigi að vera,“ segir hún og að ef læknir brjóti þessa skyldu geti það verið lögbrot. Læknar hafi einhverjar málsbætur en það geti verið einhver viðurlög.

Hún segir það kröfu Læknafélagsins að þessi mál verði skoðuð sem fyrst, hvað varðar alla hópa, en sérstaklega hvað varðar stöðu fólks í viðkvæmri stöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×