Sport

Alcaraz sjokkerar tennisheiminn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Alcaraz á Wimbledon-mótinu í sumar. Þar tapaði hann í úrslitum fyrir Jannik Sinner eftir að hafa unnið mótið árin tvö á undan.
Alcaraz á Wimbledon-mótinu í sumar. Þar tapaði hann í úrslitum fyrir Jannik Sinner eftir að hafa unnið mótið árin tvö á undan. Clive Brunskill/Getty Images

Tenniskappinn Carlos Alcaraz hefur ákveðið að slíta samstarfi við þjálfara sinn, Juan Carlos Ferrero. Ákvörðunin hefur valdið undrun innan tennisheimsins.

Alcaraz er 22 ára og hefur á stuttum ferli unnið til sex ofurtitla. Hann tilkynnti í gær að hann hafi ákveðið að slíta samstarfið við landa sinn Ferrero sem hefur verið þjálfari kappans frá unglingsaldri fyrir næsta tímabil.

Hvorki Alcaraz né Ferrero hafa viljað tjá sig um ástæður slitanna á þeirra samstarfi. Breska ríkisútvarpið, BBC, segir Ferrero ekki hafa viljað hætta störfum með unga Spánverjanum.

„Takk fyrir að breyta barnæskudraumum mínum í veruleika,“ segir Alcaraz í yfirlýsingu. „Ég hef notið ferðalagsins með þér.“

Alcaraz stefnir á að verða yngsti tennismaður sögunnar til að klára alslemmu risatitla á Opna ástralska mótinu í næsta mánuði.

Alcaraz hefur ekki komist lengra en í átta manna úrslit á mótinu til þessa en hann gerði það bæði í fyrra og hitteðfyrra. Önnur risamót; Opna franska, Wimbledon-mótið og Opna bandaríska, hefur hann unnið tvisvar hvert.

Óljóst er hver muni taka við starfi Ferrero við hlið spænska undrabarnsins en annar Spánverji, Samuel Lopez, hefur verið í þjálfarateymi Alcaraz og sinnt starfi Ferrero þegar hann hefur verið frá af persónulegum ástæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×