Handbolti

Hleyptu Þor­steini ekki heim og vilja ekki að hann fari á EM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þorsteinn Leó er lykilleikmaður í liði Porto, næstsigursælasta liði Portúgals, sem komst í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar í fyrra. 
Þorsteinn Leó er lykilleikmaður í liði Porto, næstsigursælasta liði Portúgals, sem komst í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar í fyrra.  Vísir/Anton Brink

Handboltamaðurinn Þorsteinn Leó Gunnarsson hefur jafnað af meiðslum hraðar en áætlað var og fær loksins að fara heim til Íslands í dag, eftir að hafa þrætt lengi við stjórnarmenn Porto sem vilja helst ekki að hann fari á EM.

Meiðsli í nára hafa haldið Þorsteini frá keppni síðastliðinn mánuð og upphaflega leit ekki út fyrir að hann gæti tekið þátt á EM í janúar með íslenska landsliðinu, en batinn hefur gengið vonum framar.

„Eins og planið var þá er ég langt á undan áætlun“ sagði Þorsteinn í samtali við Vísi.

Fyrsti leikur raunhæft markmið

Óvissan er þó enn til staðar og þess vegna verður hann ekki valinn í landsliðshópinn sem Snorri Steinn Guðjónsson mun tilkynna klukkan eitt í dag.

Þorsteinn mun samt æfa með liðinu þegar hópurinn kemur saman í byrjun janúar og vonast til að verða orðinn klár í slaginn áður en mótið hefst.

„Ég tel það raunhæft markmið að vera klár í fyrsta leikinn [gegn Ítalíu þann 16. janúar], ef ekki, þá allavega fyrir milliriðlana. Maður er að gera allt til að vera heill fyrir það.“

Fékk ekki leyfi fyrir heimför

Þegar hann varð fyrir meiðslunum vildi Þorsteinn sinna endurhæfingunni hér á Íslandi en stjórnarmenn hjá Porto höfðu aðrar hugmyndir.

„Þeir eru búnir að vera mjög erfiðir. Ég er búinn að reyna að fara heim síðan í byrjun desember. Mig langaði að fara heim og sinna sjúkraþjálfun á Íslandi, en þeir voru ekki alveg sáttir með það.

Það er svosem ekkert sem maður getur gert í því annað en bara að hlýða og auðvitað eru þeir að gera góða hluti hérna úti sem virka vel, en þegar maður er ekki að spila handbolta væri maður alveg til í að vera á Íslandi“ sagði Þorsteinn, sem fékk á endanum leyfi til að fara heim í dag, þremur dögum áður en jólafrí liðsins hefst.

Þú ert náttúrulega lykilmaður hjá Porto og ef þeir fengju alveg að ráða þá værirðu kannski ekkert að fara á EM?

„Já, það er bara akkúrat þannig. Þeir eru ekki alveg með á planinu að ég spili á EM, segja að það sé óraunhæft markmið og segja að ég gæti orðið verri eftir mótið. Það er ekki gott fyrir þá, þeir vilja fá mig heilan eftir pásuna en ég held að ég geti gert bæði“ sagði Þorsteinn þá.

Fjallað var um stærsta strákinn okkar í Sportpakka Sýnar í gærkvöldi. Innslagið má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×