Félagið tilkynnti eftir lokun markaða í gær að það myndi efna til lokaðs útboðs beint að erlendum fjárfestum á breytanlegum skuldabréfum upp á 100 milljónir Bandaríkjadala með gjalddaga á árinu 2030. Fjármögnuninni er ætlað að styðja við fjárfestingu í þróun nýrra hliðstæðna líftæknilyfja, sem áætluð er að verði 250 milljónir dala á næsta ári, og styrkja lausafjárstöðuna.
Þessi eftirspurn lýsir trausti fjárfestanna á viðskiptaáætlunum Alvotech og framtíðarhorfum félagsins.
Þegar útboðið kláraðist fyrir opnun markaða í morgun – félagið er skráð í kauphallir á Íslandi, Svíþjóð og Bandaríkjunum – þá var niðurstaðan sú að Alvotech seldi skuldabréf til erlendra fjárfesta fyrir samtals um 108 milljónir dala, jafnvirði tæplega 14 milljarða króna, en vextir á bréfunum eru 6,875 prósent. Heimild hafði verið til að stækka útboðið í allt að 125 milljónir dala.
Róbert Wessman, aðaleigandi, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech, segist fagna niðurstöðu útboðsins og þeirri miklu umframeftirspurn sem var á meðal alþjóðlegra fjárfesta – en þeim var ráðstafað að teknu tilliti til samsetningar fjárfestahópsins.
„Þessi eftirspurn lýsir trausti fjárfestanna á viðskiptaáætlunum Alvotech og framtíðarhorfum félagsins, ásamt jákvæðu mati á þeim miklu verðmætum sem fólgin eru í þeirri fullkomnu aðstöðu til framleiðslu og þróunar sem við höfum byggt upp á undanförnum árum hér á Íslandi. Með þessari fjármögnun getum við ótrauð haldið áfram að þróa verðmætasta safn nýrra hliðstæðna í lyfjaiðnaðinum og markaðssetningu um allan heim, til að bæta aðgengi sjúklinga að hágæða líftæknilyfjum.“
Hlutabréfaverð Alvotech lækkaði lítillega við opnun markaða hér heima í morgun – það hafði áður fallið skarpt við lokun Kauphallarinnar í gær – og stendur núna í 650 krónum á hlut.
Ákvörðun Alvotech að efna til útboðs til að sækja sér frekara fjármagn kemur í kjölfar þess að FDA tilkynnti í upphafi nóvember það gæti ekki veitt markaðsleyfi fyrir fyrirhugaða hliðstæða við líftæknilyfið Simponi fyrr en búið væri að bregðast með fullnægjandi hætti við athugasemdum sem voru gerðar á framleiðsluaðstöðunni eftir úttekt í júlí. Tekju- og afkomuspáin fyrir þetta ár var í kjölfarið lækkuð verulega og hlutabréfaverð félagsins hríðfell.
Handbært fé Alvotech var aðeins um 43 milljónir dala í lok þriðja fjórðungs.
Í tilkynningu Alvotech síðla dags í gær kom fram að félagið sé búið að fá sambærilegt svar frá FDA vegna umsóknar um markaðsleyfi fyrir hliðstæðu við Eylea. Þá er gert ráð fyrir að niðurstaðan verði sú hin sama þegar kemur að útistandandi umsókn vegna hliðstæðu við Prolia og Xgeva. Félagið telur að allar þessar umsóknir sem núna liggja fyrir hjá FDA verði samþykktar á seinni árshelmingi 2026. Alvotech segist vera bjartsýnt að verða fyrst, eða meðal fyrstu, framleiðenda sem fá markaðsleyfi fyrir hliðstæður Simponi og Simponi Aria í Bandaríkjunum.
Breytanlegu bréfin eru með lokagjalddaga 22. desember árið 2030 en viðmiðunargengi vegna breytiréttar þeirra er með 25 prósent álagi á gengi þeirra hlutabréfa sem Alvotech Manco ehf. dótturfélag Alvotech, seldi til kaupendanna samhliða viðskiptunum. Viðmiðunargengið er því ríflega 5,9 Bandaríkjadalir á hlut. Félagið hefur rétt til að innkalla breytanlegu skuldabréfin þegar rúmlega þrjú ár eru liðin frá því að skuldabréfin eru afhent fjárfestum, ef magnvegið gengi hlutabréfa félagsins á markaði er að minnsta kosti 150 prósent yfir viðmiðunargenginu í 20 viðskiptadaga samfellt á 30 daga tímabili.
Í tilkynningunni er jafnframt útskýrt hvernig fyrrnefnt dótturfélag Alvotech hefði lánað þeim fjárfestum sem kaupa breytanlegu bréfin hlutabréf í Alvotech sem þeir geta þá selt á markaði í því skyni að verja sig gagnvart markaðsáhættu.
Umsjónaraðili útboðsins, norrænni fjárfestingabankinn DNB Carnegie, hafði milligöngu um sölu hlutabréfanna til tveggja stærstu hluthafa Alvotech – ATP Holdings sem í eigu fjárfestingafélags Róberts og Alvogen Lux Holding – sem fjárfestar fengu að láni frá Alvotech Manco. Alls nam verðmæti hlutabréfanna um 56 milljónum Bandaríkjadala. Hlutabréfin voru seld með tíu prósenta afslætti frá lokagengi bréfa á Nasdaq-markaðnum í Stokkhólmi í gær, sem var 48,95 sænskar krónur og jafngildir um 4,74 Bandaríkjadölum á hlut.
Samtímis því að efnt var útboðsins í gærkvöldi tilkynnti Alvotech um uppfærða afkomuspá félagsins. Spáin fyrir 2025 var staðfest – tekjurnar verði 570 til 600 milljónir dala og EBITDA-hagnaðurinn um 130 til 150 milljónir dala – en síðan er gert ráð fyrir vaxandi tekjum og EBITDA-framlegð á næsta ári.
Á árinu 2026 gerir afkomuspá Alvotech ráð fyrir að heildartekjur verði á bilinu 650 til 700 milljónir dollara og tekjur af vörusölu haldi þannig áfram að vaxa. Spáin áætlar að aðlöguð EBITDA hækki í 180til 220 milljónir dala, vegna aukinna tekna af þeim hliðstæðum sem nýlega hafa hlotið markaðsleyfi í Evrópu og Japan. Þá er tekið fram að í afkomuspánni sé félagið að gefa sér „varfærnar forsendur“ um að markaðssetning nýrra hliðstæðna í Bandaríkjunum hafi minniháttar áhrif á tekjur og þótt áhersla sé á að fá markaðsleyfin í Bandaríkjunum, geri neðri mörk afkomuspárinnar ekki ráð fyrir neinum tekjum af markaðssetningu þessara hliðstæðna á árinu 2026.
Í kynningu sem stjórnendur Alvotech héldu fyrir fjárfesta þegar útboðið hófst seinnipartinn í gær kom meðal annars fram að með þeirri fjármögnun sem væri núna verið að sækja þá ætti félagið að vera fullfjármagnað fram til fjórða fjórðungs 2026 þegar sjóðstreymið yrði orðið jákvætt.
Tekjur félagsins hafa í vaxandi mæli komið frá löndum utan Evrópu að undanförnu. Á fyrstu níu mánuðum ársins voru 50 prósent teknanna frá Evrópu – borið saman við 37 prósent á sama tíma fyrir ári – 44 prósent frá Bandaríkjunum og síðan 6 prósent frá öðrum löndum.
