Bíó og sjónvarp

Enginn Óskar til Ís­lands 2026

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Saga Garðars fer með eitt aðalhlutverka í myndinni. 
Saga Garðars fer með eitt aðalhlutverka í myndinni. 

Engin Óskarsverðlaun munu fara til Íslands á næsta ári en framlag Íslands - Ástin sem eftir er í leikstjórn Hlyns Pálmasonar er ekki meðal þeirra mynda sem eftir eru á stuttlista fimmtán mynda sem koma til greina til að hljóta verðlaun í flokki erlendra mynda.

Þetta má sjá á vef Óskarsins en þar var birtur stuttlisti þeirra mynda sem enn kemur til greina að muni vinna verðlaun á næsta ári. Greint var frá því í ágúst að Ástin sem eftir er yrði framlag Íslands í ár. Hátt í níutíu myndir hefja Óskarskapphlaupið en að endingu komast einungis fimmtán á stuttlistann sem kynntur var í dag.

Myndin fangar ár í lífi fjölskyldu þar sem foreldrarnir stíga fyrstu skrefin í átt að skilnaði. Á fjórum árstíðum fylgjumst við með hversdagslífi fjölskyldumeðlima í gegnum óvænt, fyndin og hjartnæm augnablik sem endurspegla hið breytta samband þeirra. 

Hún hefur vakið athygli erlendis og var meðal annars valin í hóp fimm bestu alþjóðlegu kvikmynda ársins hjá National Board of Review. Þá var hún einnig á lista yfir bestu kvikmyndir ársins hjá þó nokkrum erlendum kvikmyndaritum á borð við The Film Stage og Sight and Sound. Myndin hefur auk þess unnið til sjö alþjóðlegra verðlauna frá því að hún var frumsýnd á Cannes í maí á þessu ári, fyrst íslenskra mynda í Cannes Premier flokki.

Ástin sem eftir er var valin af dómnefnd Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar sem í sátu fulltrúar helstu fagfélaga íslenska kvikmyndaiðnaðarins auk fulltrúa kvikmyndahúsa, kvikmyndagagnrýnenda og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Óskarsverðlaunahátíðin verður haldin í 98. sinn sunnudaginn 15. mars 2026. Stuttlistinn var kynntur í dag, 16. desember, og eru einungis fimmtán myndir valdar í flokknum eins og áður segir. Tilnefningar til verðlaunanna verða svo opinberaðar 22. janúar 2026.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.