Fótbolti

Gest­gjafar HM bjóða Ís­landi heim í leik

Sindri Sverrisson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson gæti mögulega bætt Mexíkó við á lista liða sem hann hefur mætt með íslenska landsliðinu.
Guðlaugur Victor Pálsson gæti mögulega bætt Mexíkó við á lista liða sem hann hefur mætt með íslenska landsliðinu. Getty/Sebastian Frej

Mexíkó, einn þriggja gestgjafa næsta heimsmeistaramóts karla í fótbolta, mun mæta Íslandi í vináttulandsleik í febrúar næstkomandi.

KSÍ greinir frá þessu og segir að sambandið muni ekki bera kostnað af verkefninu.

Mexíkóar eru að búa sig undir heimsmeistaramótið næsta sumar en leikurinn við Ísland verður í Queretaro 25. febrúar. Það þýðir að leikurinn er utan FIFA-leikjagluggans og því mun Arnar Gunnlaugsson ekki geta nýtt alla sína bestu leikmenn heldur aðeins þá sem fá leyfi frá sínu félagsliði til að spila, og sömu sögu er að segja með mexíkóska liðið.

Mexíkó verður mögulega mótherji Íranna hans Heimis Hallgrímssonar á HM. Mexíkóar spila í A-riðli með Suður-Afríku og Suður-Kóreu, og fjórða liðið verður svo sigurliðið úr D-leið umspilsins í Evrópu í mars. Í því umspili mætast í undanúrslitum Tékkland og Írland í Prag, og Danmörk og Norður-Makedónía í Kaupmannahöfn. Tékkar eða Írar verða svo á heimavelli í úrslitaleiknum.

Ísland og Mexíkó hafa fimm sinnum áður mæst í A landsliðum karla, alltaf í vináttuleikjum á erlendri grundu, og er Ísland enn í leit að fyrsta sigrinum. Fyrstu tveimur viðureignunum lauk báðum með markalausu jafntefli og næstu þremur með mexíkóskum sigri. Liðin mættust síðast í lok maí 2021 í Arlington í Texas þar sem Mexíkó vann 2-1 sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×