Enski boltinn

Bróðirinn sendir Amorim skila­boð: „Frelsið Kobbie Main­oo“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skilaboðin sem Jordan Mainoo-Hames vildi senda Ruben Amorim komust til skila.
Skilaboðin sem Jordan Mainoo-Hames vildi senda Ruben Amorim komust til skila.

Jordan Mainoo-Hames, hálfbróðir Kobbies Mainoo, leikmanns Manchester United, sendi Ruben Amorim, knattspyrnustjóra liðsins, skýr skilaboð á leiknum gegn Bournemouth í gær.

United gerði 4-4 jafntefli við Bournemouth í ótrúlegum leik á Old Trafford í gærkvöldi.

Mainoo kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik en hann hefur ekki enn byrjað inn á í leik í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu, eitthvað sem hefur farið verulega í taugarnar á stuðningsmönnum United og þeim sem næst Mainoo standa.

Hálfbróðir hans nýtti allavega tækifærið til að sýna honum stuðning í gær en hann mætti á Old Trafford í bol sem á stóð: „Frelsið Kobbie Mainoo.“

Ekki er vitað hvernig þetta uppátæki bróðursins mældist fyrir hjá Amorim en hann var ekki spurður út í það eftir viðureign gærdagsins.

Fyrir leikinn gegn Bournemouth kvaðst Amorim vera tilbúinn að ræða við Mainoo um möguleikann á að fara frá United á láni.

„Ef Kobbie kemur og talar við mig, tala ég við hann. Ég ætla ekki að segja hvað ég mun segja við hann en ég verð mjög ánægður ef Kobbie talar við mig um það. Ég vil bara að leikmennirnir mínir séu sáttir og skil að hver þeirra hefur sín markmið,“ sagði Amorim.

Mainoo spilaði hálftíma gegn Bournemouth sem er það þriðja mesta sem hann hefur spilað í leik í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

United er í 6. sæti deildarinnar og mætir sjóðheitu liði Aston Villa í næsta leik sínum á sunnudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×