Erlent

Hálfís­lensk hljóm­sveit skil­greind öf­ga­samtök í Rúss­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Pussy Riot á tónleikum í tilefni af því að 35 ár voru liðin frá falli Berlínarmúrsins í fyrra. Tónleikarnir voru haldnir við höfuðstöðvar öryggislögreglunnar alræmdu Stasí.
Pussy Riot á tónleikum í tilefni af því að 35 ár voru liðin frá falli Berlínarmúrsins í fyrra. Tónleikarnir voru haldnir við höfuðstöðvar öryggislögreglunnar alræmdu Stasí. Vísir/EPA

Rússneskur dómstóll hefur lýst hljómsveitina Pussy Riot öfgasamtök og bannað starfsemi hennar í landinu að kröfu stjórnvalda í Kreml. Þrír liðsmenn hljómsveitarinnar eru nú íslenskir ríkisborgarar.

Fimm liðskonur Pussy Riot voru dæmdar í allt að þrettán ára fangelsi að sér fjarstöddum í september. Þær voru sakaðar um að dreifa lygum um rússneska herinn. Rússnesk stjórnvöld hafa beitt slíkum ákærum til þess að berja niður andóf gegn hernaði þeirra í Úkraínu.

Öfgastimpillinn virtist ekki valda Nadíu Tolokonnikovu, einum stofnenda Pussy Riot, miklu hugarangri í síðasta mánuði.

„Ef það er öfgahyggja að segja sannleikann þá erum við ánægðar með að vera öfgamenn,“ skrifaði Tolokonnikova á samfélagsmiðil í nóvember.

Tolokonnikova hlaut íslenskan ríkisborgararétt í sumar. Mariia Alekhina og Liudmila Shtein urðu ríkisborgarar tveimur árum fyrr. Reuters-fréttastofan segir að Tolokonnikova dvelji nú í Bandaríkjunum.

Pussy Riot vakti fyrst athygli fyrir gjörning í Kristskirkjunni í Moskvu árið 2012. Nokkrir liðsmenn sveitarinnar voru handteknir og fangelsaðir fyrir að mótmæla Vladímír Pútín forseta og stjórn hans í rétttrúnaðarkirkjunni sem er nátengd rússneska ríkinu.

Félagar í sveitinni hafa einnig verið skilgreindir sem útsendarar erlendra ríkja í Rússland. 

Stjórnvöld í Kreml hafa beitt þeirri skilgreiningu og öfgasamtakastimplinum til þess að þagga niður í fjölmiðlum, stjórnarandstæðingum og andófsfólki. Meðal annars skilgreindu þau samtök Alexí Navalní heitins sem öfgasamtök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×