Enski boltinn

Henderson heiðraði minningu Jota eftir fyrsta markið sitt í fjögur ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Henderson fagnar hér markinu sínu í dag fyrir Brentford á móti Leeds United.
Jordan Henderson fagnar hér markinu sínu í dag fyrir Brentford á móti Leeds United. Getty/David Horton

Jordan Henderson, miðjumaður Brentford, heiðraði fyrrverandi liðsfélaga sinn hjá Liverpool, Diogo Jota, eftir að hafa skorað langþráð mark í 1-1 jafntefli gegn Leeds í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Enski miðjumaðurinn spilaði 77 leiki með Jota, sem lést í bílslysi 28 ára gamall í júlí, ásamt bróður sínum Andre Silva.

Henderson endurskapaði þekkt fagnaðarlæti portúgalska framherjans þegar hann settist niður og þóttist spila tölvuleik. Þannig fagnaði hann sínu fyrsta marki í ensku úrvalsdeildinni síðan í desember 2021.

Það mark kom í þægilegum 4-1 sigri Liverpool í Derby-slag gegn nágrönnunum Everton þegar Jota var einnig meðal markaskorara Liverpool.

„Það var afmæli hans nýlega,“ sagði Henderson, 35 ára, við Sky Sports.

„Við munum aldrei gleyma honum. Við munum alltaf minnast hans. Ég get aðeins ímyndað mér hvað strákarnir hjá Liverpool eru að ganga í gegnum. Hann var góður vinur og, eins og ég sagði, ég skora ekki mörg mörk svo ég ákvað að tileinka það honum,“ sagði Henderson.

Fyrrverandi fyrirliði Liverpool var grátandi þegar hann lagði blóm til heiðurs Jota fyrir utan Anfield daginn eftir andlát hans.

Henderson fór frá Liverpool til að ganga til liðs við Al-Ettifaq, sem er í saudíarabísku atvinnumannadeildinni, í júlí 2023, áður en hann fór til Ajax í janúar 2024.

Hann samþykkti að rifta samningi sínum við hollenska félagið fyrr en áætlað var síðasta sumar og sneri aftur í enska boltann með Brentford.

35 ára og 180 daga gamall í dag og með því varð Henderson elsti markaskorari Brentford í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×