Körfubolti

Tinda­stóll, Kefla­vík og KR brunuðu á­fram í bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ivan Gavrilovic raðaði niður körfunum á Króknum í kvöld.
Ivan Gavrilovic raðaði niður körfunum á Króknum í kvöld. Vísir/Anton Brink

Tindastóll, Keflavík og KR bættust í kvöld í hóp með Grindvíkingum yfir þau lið sem hafa tryggt sér sæti í átta liða úrslitum VÍS-bikars karla í körfubolta. Það var ekki mikil spenna í leikjunum þremur.

Tindastóll vann 59 stiga sigur á 1. deildarliði Hamars í Síkinu á Sauðárkróki, 124-66, eftir að hafa verið 70-24 yfir í hálfleik.

Það er ekkert grín að mæta Stólunum þessa dagana eins og Álftnesingar fengu að kynnast á föstudagkvöldið. Stólarnir kólnuðu ekkert niður á nokkrum dögum og voru einnig í ham í kvöld.

Ivan Gavrilovic nýtti mínútur sínar vel og skoraði 24 stig fyrir Stólana. Taiwo Badmus var með 20 stig og Júlíus Orri Ágústsson skoraði 16 stig. Davis Geks bætti við 12 stigum og Viðar Ágústsson var með 11 stig.

Lúkas Aron Stefánsson skoraði 15 stig fyrir Hamarsliðið og Birkir Máni Daðason var með 14 stig. Atli Rafn Róbertsson var síðan með 12 stig en Ryan Benjamin Peters skoraði bara átta stig.

KR vann 26 stiga sigur á 1. deildarliði Fjölnis í Vesturbænum, 113-87, eftir að hafa verið 64-41 yfir í hálfleik.

Veigar Áki Hlynsson var stigahæstur hjá KR með 19 stig en þeir Kenneth Jamar Doucet Jr. og Vlatko Granic skoruðu báðir 17 stig. Friðrik Anton Jónsson skoraði 11 stig eins og Linards Jaunzems.

Oscar Jorgensen var með 28 stig fyrir Fjölni og þeir Jónas Steinarsson og Viktor Máni Steffensen skoruðu báðir 15 stig fyrir B-deildarliðið.

Keflavík vann öruggan 31 stigs sigur á ÍA uppi á Akranesi, 102-71, en þar voru tvö Bónusdeildarlið að mætast. Keflavík var 49-36 yfir í hálfleik.

Það voru margir að skila stigum hjá Keflavík en Jaka Brodnik var stigahæstur með 20 stig. Hilmar Pétursson skoraði 19 stig og Halldór Garðar Hermannsson var með 16 stig af bekknum. Mirza Bulic var síðan með 14 stig og Darryl Morsell skoraði 11 stig.

Dibaji Walker og Josip Barnjak skoruðu báðir 13 stig fyrir Skagamenn en þeir Ilija Dokovic, Kristófer Már Gíslason og Aron Elvar Dagsson voru síðan allir með 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×