Handbolti

Tíu mörk frá Hauki ekki nóg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Þrastarson átti flottan leik fyrir Ljónin í þýska handboltanum í kvöld.
Haukur Þrastarson átti flottan leik fyrir Ljónin í þýska handboltanum í kvöld. EPA/Sandor Ujvari

Þriggja leikja sigurganga Hauks Þrastarsonar og félaga í Rhein-Neckar Löwen í þýsku Bundesligunni í handbolta endaði í kvöld. Haukur átti stórleik sem lofar góðu fyrir komandi Evrópumót með landsliðinu.

Ljónin heimsóttu þá SG Flensburg-Handewitt og urðu að sætta sig við fjögurra marka tap.

Heimamenn í Flensburg-Handewitt unnu 33-29 sigur eftir að staðan var jöfn í hálfleik, 15-15.

Haukur Þrastarson átti mjög góðan leik en það var ekki nóg.

Haukur skoraði tíu mörk úr fjórtán skotum en fimm þeirra komu úr vítum. Haukur átti einnig tvær stoðsendingar og kom því að tólf mörkum í leiknum.

Haukur var langmarkahæsti maðurinn í sínu liðinu en sá næsti á eftir honum skoraði fjögur mörk.

Haukur var einnig markahæstur á vellinum því Danirnir Emil Jakobsen og Simon Pytlick skoruðu mest fyrir Flensburg eða átta mörk hvor.

Eftir þetta tap er Rhein-Neckar Löwen í áttunda sæti, stigi á eftir Melsungen. Flesnburg er í öðru sæti, fjórum stigum á eftir toppliði Magdeburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×