Handbolti

Katrine Lunde fékk draumaendinn sinn og þær norsku urðu heims­meistarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrine Lunde Haraldsen lyftir hér heimsmeistaratitlinum eftir síðasta landsleikinn sinn.
Katrine Lunde Haraldsen lyftir hér heimsmeistaratitlinum eftir síðasta landsleikinn sinn. Getty/ Federico Gambarini

Norska kvennalandsliðið í handbolta tryggði sér í kvöld heimsmeistaratitilinn í fimmta sinn með sigri á Þýskalandi í úrslitaleik í Rotterdam í Hollandi.

Noregur vann leikinn á endanum með þriggja marka mun, 23-20 en liðið vann alla níu leiki sína á mótinu.

Þetta var fyrsta stórmót norska landsliðsins síðan að Þórir Hergeirsson hætti með liðið og þær gátu ekki byrjað betur. Eftirmaður hans, Ole Gjekstad, byrjar því á gulli en Þórir náði ekki að vinna sitt fyrsta mót sem aðalþjálfari liðsins.

Með þessum sigri í kvöld þá eru norsku konurnar handhafar allra stóru titlana því þær unnu bæði EM og Ólympíuleikana undir stjórn Þóris í fyrra.

Liðið hafði mikla yfirburði allt mótið en fékk vissulega mikla mótstöðu frá þýska landsliðinu sem var að spila sinn fyrsta úrslitaleik á HM síðan 1993.

Þýsku stelpurnar voru skrefinu á undan í fyrri hálfleik en staðan var 11-11 í hálfleik.

Norska liðið  kom af krafti inn í seinni hálfleikinn en þýska liðið var alltaf skammt undan. Norsku stelpurnar voru hins vegar sterkari á lokamínútunum og tryggðu sér gullið.

Henny Reistad og Thale Rushfeldt Deila voru markahæstar með fimm mörk hvor en Katrine Lunde varði fjórtán skot í markinu.

Emily Vogel, Alina Grijseels og Viola Leuchter skoruðu allar fjögur mörk fyrir þýska liðið.

Markvörðurinn Katrine Lunde var þarna að spila sinn síðasta landsleik á ótrúlegum ferli og hún fékk sinn draumaendi. Hún átti stórleik í markinu og vann sinn þriðja heimsmeistaratitil og þrettánda gull á stórmótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×