Handbolti

Spara margar milljónir vegna ráðningar Rúnars

Sindri Sverrisson skrifar
Rúnar Sigtryggsson gerði frábæra hluti með Leipzig en var að lokum látinn fara, síðasta sumar, þegar ár var eftir af samningi hans við félagið.
Rúnar Sigtryggsson gerði frábæra hluti með Leipzig en var að lokum látinn fara, síðasta sumar, þegar ár var eftir af samningi hans við félagið. Getty/Alex Grimm

Það að Rúnar Sigtryggsson hafi í dag verið ráðinn þjálfari þýska handknattleiksliðsins Wetzlar hefur jákvæð áhrif fyrir annað félag í efstu deild Þýskalands.

Rúnar var rekinn frá Leipzig í sumar, þrátt fyrir árangur sinn með liðið, en átti þá enn eftir eitt ár af samningi sínum við félagið.

Samkvæmt Sport Bild hefði Leipzig því þurft að greiða Rúnari laun út júní á næsta ári ef hann hefði ekki nú verið ráðinn til Wetzlar.

Miðillinn segir að ráðningin þýði að Leipzig spari sér 100.000 evrur brúttó, eða um 15 milljónir íslenskra króna.

Rúnar tekur við Wetzlar í erfiðri stöðu en þó kannski ekki eins erfiðri og þegar hann tók við Leipzig, í nóvember 2022, þegar liðið var aðeins með fjögur stig, og kom því fljótt í þægilega stöðu með sex sigrum í röð. Liðið varð svo í 8. sæti næstu leiktíð en endaði í 13. sæti af 18 liðum á síðustu leiktíð, og var látinn fara.

Núna er Leipzig í neðsta sæti með 5 stig, eða jafnmörg stig og Wetzlar, fjórum stigum á eftir næsta liði sem er Minden í 16. sæti.

Rúnar þarf að vinna hratt því framundan eru þrír leikir á næstu tveimur vikum og er sá fyrsti við Füchse Berlín á sunnudaginn, áður en við taka leikir við Eisenach og Lemgo. Eftir það tekur við jóla- og EM-hlé fram í febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×