Erlent

Trump, Clinton, Gates og fleiri á nýjum Epstein-myndum

Samúel Karl Ólason skrifar
Nokkrar af nýjum myndunum úr einkasafni Epsteins.
Nokkrar af nýjum myndunum úr einkasafni Epsteins. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþing

Demókratar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hafa birt nítján nýjar myndir úr dánarbúi barnaníðingsins Jeffreys Epstein. Á myndunum eru nokkrir auðugir, þekktir og áhrifamiklir menn eins og Donald Trump, Bill Clinton Bill Gates, Richard Branson, Woody Allen og Steve Bannon.

Nokkrar myndir sýna kynlífstól og Trump-smokka. Vert er að taka fram að myndirnar sýna ekkert glæpsamlegt athæfi og ekki liggur fyrir hvenær þær voru teknar.

Að minnsta kosti ein mynd er úr safni Getty og virðist ekki koma Epstein við. Hún sýnir Bill Gates og Andrew Mountbatten-Windsor, áður Andrés Bretaprins, og var tekin af blaðaljósmyndara á ráðstefnu í Lundúnum 2018. Karl konungur hefur verið klipptur úr myndinni.

Myndirnar eru hluti af um 95 þúsund myndum í heild sem eru í vörslu dánarbúsins og voru nýverið afhentar nefndinni. Demókratar segja að fleiri myndir verði birtar á næstunni.

Repúblikanar í nefndinni hafa gagnrýnt Demókrata fyrir að handvelja myndir úr safninu til að reyna að koma höggi á Donald Trump. Ekkert bendi til þess að Trump hafi brotið af sér með nokkrum hætti í tengslum við Epstein.

Sjá einnig: Birtu áður óséðar myndir af einkaeyju Epsteins

Þeir saka Demókrata um að nýta sér þjáningu fórnarlamba Epsteins í pólitískum tilgangi.

Ný lög skilyrða dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna til að opinbera fjölda gagna um mál Epstein í næstu viku.

Lögin sem um ræðir snúa að skjölum sem dómsmálaráðuneytið hefur aflað í tengslum við rannsóknir í garð Jeffreys Epstein og annarra sem honum tengjast í gegnum árin. Það á við um rannsóknina þegar hann var handtekinn 2019 en gögnin ættu meðal annars að varpa ljósi á samkomulag sem Epstein gerði við saksóknara í Flórída á árum áður og rannsóknirnar sem bæði lögreglan í Flórída og Alríkislögregla Bandaríkjanna (FBI) gerðu þá.

Ráðuneytið á að opinbera gögnin fyrir 19. desember.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Hér má sjá Jeffrey Epstein með óþekktum manni og auðjöfrinum Richard Branson.

Hér má sjá Larry Summers, fyrrverandi skólastjóra Harvard og Elisu New eiginkonu hans.

Svo kallaðir „Trump-smokkar“. Ekki liggur fyrir hvenær þessi mynd var tekin né við hvaða tilefni.

Sjálfa af Epstein og Steve Bannon, áhrifamiklum manni á hægri væng bandarískra stjórnmála og ráðgjafa Trumps til langs tíma.

Leiðbeiningar um hvernig nota eigin sérstakan múl.

Woody Allen og Jeffrey Epstein.

Donald Trump, Epstein og óþekkt kona í samkvæmi. Trump og Epstein voru vinir á árum áður. Trump hefur áður sagt að hann hafi slitið tengsl sín við Epstein árið 2004.

Óþekktur maður og Bill Gates, stofnandi Microsoft og einn auðugasti maður heims.

Bill Gates og Andrew Mountbatten-Windsor, áður Andrés Bretaprins. Þessi mynd var birt af Demókrötum og sögð koma úr safni Epsteins, en hún virðist koma úr safni Getty og var tekin á ráðstefnu í Lundúnum árið 2018. Myndin hefur verið klippt svo Karl konungur sést ekki á henni.

Woody Allen og Steve Bannon.

Kynlífshanski, einhverskonar.

Mynd af Bill Gates, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, með þeim Ghislane Maxwell og Epstein. Maxwell var lengi aðstoðarkona Epsteins og var dæmd í fangelsi fyrir að útvega honum stúlkur til að brjóta á.

Epstein og lögmaðurinn frægi Alan Dershowitz.

Donald Trump í hópi kvenna.

Allskonar kynlífstól.

Steve Bannon og Epstein á fundi.

Eppstein og Woody Allen.

Myndir af myndum heima hjá Epstein.

Mynd af Donald Trump og óþekktri konu.

Tengdar fréttir

Heimila nú birtingu gagna úr rann­sókn á Epstein

Bandarískur alríkisdómari hefur heimilað dómsmálaráðuneytinu að opinbera gögn frá störfum ákærudómstóls sem skoðaði vísbendingar og sönnunargögn gegn barnaníðingnum Jeffrey Epstein árið 2019. Í gær komst annar dómari að sambærilegri niðurstöðu um gögn úr rannsókn gegn Ghislaine Maxwell, fyrrverandi aðstoðarkonu og kærustu Epsteins.

Heimilar birtingu gagna úr rannsókn á Maxwell

Bandarískur alríkisdómari heimilaði í dag dómsmálaráðuneytinu að opinbera gögn úr rannsókn ákærudómstóls sem beindust að Ghislaine Maxwell. Ákvörðunin gæti leitt til birtingar mikils magns áður óséðra gagna í Epstein-málinu.

Kallar Greene heimskan svikara

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, er verulega ósáttur við stjórnendur fréttaskýrendaþáttarins 60 mínútna, fréttakonuna Lesley Stahl og eigendur Paramount. Hann virðist þó sérstaklega ósáttur við Marjorie Taylor Greene, fráfarandi þingkonu Repúblikanaflokksins og fyrrverandi stuðningsmann sinn, og kallar hana heimskan svikara í nýrri færslu á samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×