Enski boltinn

Carragher: „Ef Salah reynir að henda fé­laginu mínu undir rútuna veð ég í hann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah verður ekki með Liverpool gegn Inter í Meistaradeild Evrópu í kvöld eftir ummæli hans að loknu jafnteflinu við Leeds United á laugardaginn.
Mohamed Salah verður ekki með Liverpool gegn Inter í Meistaradeild Evrópu í kvöld eftir ummæli hans að loknu jafnteflinu við Leeds United á laugardaginn. getty/Liverpool FC

Jamie Carragher fór engum silkihönskum um Mohamed Salah í Monday Night Football á Sky Sports. Hann sagði að ummæli hans eftir leikinn við Leeds United hafi verið til skammar.

Liverpool gerði 3-3 jafntefli við nýliða Leeds í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Eftir leikinn ræddi Salah við fjölmiðla og honum lá mikið á hjarta. Hann sagðist hafa verið gerður að blóraböggli fyrir slæmt gengi liðsins, honum hafi verið hent undir rútuna og að samband hans og knattspyrnustjórans Arnes Slot væri brostið.

Salah ferðaðist ekki með Liverpool-liðinu til Mílanó þar sem það mætir Inter í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Á blaðamannafundi fyrir leikinn sagðist Slot ekki hafa hugmynd um hvort Salah myndi spila aftur fyrir Liverpool.

Carragher tjáði sig um ummæli Salahs í Monday Night Football í gær. Hann sagði að Egyptinn hefði skipulagt viðtalið fyrirfram.

Reynir að valda sem mestum skaða

„Mér fannst skömm að því sem hann gerði eftir leikinn. Sumir hafa talað um þetta sem útspil manns í uppnámi en ég held að svo hafi ekki verið,“ sagði Carragher.

Jamie Carragher var ekki hrifinn af upphlaupi Salahs eftir leikinn gegn Leeds.getty/MB Media

„Í hvert skipti sem Salah fer í viðtal eftir leiki, sem hann hefur gert fjórum sinnum á átta árum hjá Liverpool, er það vandlega undirbúið af honum og umboðsmanni hans til að valda sem mestum skaða og styrkja eigin stöðu. Hann valdi þessa helgi til að gera þetta núna og ég held að hann hafi beðið eftir slæmum úrslitum hjá Liverpool. Eftir jöfnunarmarkið undir lokin voru allir hjá Liverpool í sárum og hann valdi þennan tíma til að vaða í stjórann og jafnvel að reyna að láta reka hann.“

Einn af þeim bestu í sögu félagsins

Þrátt fyrir að vera vonsvikinn með framgöngu Salahs vonast Carragher til að hann spili áfram fyrir liðið.

„Hvort hann spilar aftur fyrir Liverpool veit ég ekki. Ég vona það því hann er einn af bestu leikmönnum sem við höfum haft. En ef þú heldur svona áfram og kemur með svona yfirlýsingar ef þú spilar ekki, hver veit?“ sagði Carragher.

Segist ekki hafa tekið Salah fyrir

Eftir leikinn gegn Leeds minntist Salah á Carragher og sagði að hann hefði gagnrýnt hann ítrekað.

Salah ásamt Hugo Ekitiké sem skoraði tvívegis gegn Leeds.getty/Tim Markland

„Hef ég einhvern tímann gagnrýnt Mo Salah á vellinum? Ég hef aldrei gagnrýnt hann fyrir að hlaupa ekki til baka. Ég hef aldrei gagnrýnt hann þegar hann hefur ekki skorað í leikjum. Ég hef aldrei gagnrýnt hann þegar hann hefur ekki gefið á einhvern þegar hann átti að gera það. Því hann er algjör goðsögn hjá félaginu og fyrir það sem hann gerir þarftu að sætta þig við ýmislegt,“ sagði Carragher.

„Mér finnst gagnrýnin á Salah á þessu tímabili hafa verið sumpart yfirdrifin. Ég hef sagt það opinberlega. En ef Salah reynir að henda félaginu mínu undir rútuna utan vallar og hugsar bara um sjálfan sig veð ég í hann.“

Liverpool mætir Inter á San Siro í Meistaradeildinni í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 20:00 og verður sýndur beint á Sýn Sport Viaplay.


Tengdar fréttir

Salah ekki með Liverpool til Ítalíu

Mohamed Salah ferðast ekki með Liverpool yfir til Ítalíu og verður ekki í leikmannahópi liðsins gegn Inter Milan í Meistaradeildinni Evrópu annað kvöld.

Kom stjórn­endum Liver­pool á óvart hversu harðorður Salah var

Leik­menn Liver­pool bjuggust við því að Mohamed Salah myndi tjá sig um stöðu sína hjá félaginu eftir að hafa verið ónotaður varamaður gegn Leeds United um komandi helgi. Það kom stjórn­endum Liver­pool hins vegar  á óvart hversu harðorður Salah var um sam­band sitt við þjálfarann Arne Slot.

Búist við að Salah verði hent úr hóp

Búist er við því að Mohamed Salah ferðist ekki með Liverpool yfir til Ítalíu í dag og verði ekki í hóp á morgun er liðið mætir Inter Milan í Meistaradeildinni. 

„Hann er með einhverjar Ibiza-myndir af Slot“

Það er óhætt að segja að Liverpool-miðvörðurinn Ibrahima Konaté hafi fengið að heyra það frá Messumönnum í gær þegar farið var yfir frammistöðu Frakkans á þessu vonbrigðartímabili fyrir Englandsmeistara Liverpool.

Owen um Salah: „Skil hvernig þér líður“

Michael Owen, fyrrum framherji Liverpool, sem varð síðar óvinsæll hjá félaginu þegar hann samdi við Manchester United, hefur lagt orð í belg varðandi framgang Mohamed Salah eftir leik Liverpool við Leeds í gær.

Skýtur á Salah: „Lætur þetta allt snúast um sig“

Danny Murphy, fyrrum leikmaður Liverpool og sérfræðingur í Match of the Day á breska ríkisútvarpinu, BBC, gagnrýndi framkomu Mohamed Salah eftir leik liðsins við Leeds í gær. Salah rauf þögnina við fjölmiðla eftir þriðja leik hans á varamannabekk liðsins í röð þar sem hann útilokaði ekki brottför frá félaginu.

Hádramatík í sex marka leik

Leeds United og Liverpool skildu jöfn, 3-3, í stórskemmtilegum leik á Elland Road í ensku úrvalsdeildinni. Gestirnir glutruðu niður tveggja marka forystu og fengu á sig jöfnunarmark í blálokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×