Erlent

Á fjórða tug barna drepin í drónaárás á leik­skóla

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Átök geisa í Kordófanhéruðum þar sem stjórnarherinn sækir fast að RSF-liðum.
Átök geisa í Kordófanhéruðum þar sem stjórnarherinn sækir fast að RSF-liðum. AP

Fimmtíu hið minnsta voru drepin í drónaárás í byggðinni Kalogi í Suður-Kordófanhéraði Súdan sem sögð er hafa hæft leikskóla. Minnst 33 börn eru sögð hafa látist.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að sjálfssprengidrónar hafi hæft leikskóla í Suður-Kordófanhéraði í suðurhluta Súdans þar sem RSF-sveitir hershöfðingjans sem kallaður er Hemedti reyna að halda velli. Stærstur hluti héraðsins er enn í stjórn ríkishersins en loftárásir hafa dunið yfir íbúum héraðsins undanfarið.

Læknasamtök starfandi á svæðinu, félag súdanskra lækna og súdanski herinn segja RSF bera ábyrgð á ódæðinu en RSF hefur ekki tjáð sig um málið að öðru leyti en að saka ríkisherinn um drónaárás á markað í Darfúrhéraði.

Stjórnarherinn sem lýtur stjórn Abdel Fattah al-Burhan á í blóðugri styrjöld við Rapid Support Forces (RSF) sem fyrrnefndur Hemedti, Mohamed Hamdan Dagalo, fer fyrir. Þessir menn stóðu saman að valdaráni en tilraunir til að samþætta skæruliðasveitir þeirra brutust átök á milli þeirra út. Átökin hafa orðið hundruðir þúsunda lífið, milljónir standa frammi fyrir hungursneyð og um fjórtán milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín og fjöldamorð stríðandi fylkinga.

Haft er eftir fulltrúum stjórnarhersins að drónar á vegum RSF hafi skotið eldflaugum á leikskóla og einnig hæft borgara og heilbrigðisstarfsfólk sem komu á vettvang í því skyni að aðstoða særða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×