Fótbolti

Messi og Ronaldo gætu mæst í átta liða úr­slitunum á HM 2026

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi þegar hann lék með Paris Saint-Germain og mætti Cristiano Ronaldo sem lék þarna með úrvalsliði Riyadh.
Lionel Messi þegar hann lék með Paris Saint-Germain og mætti Cristiano Ronaldo sem lék þarna með úrvalsliði Riyadh. Getty/Aurelien Meunier

Argentínumenn og Portúgalar voru frekar heppnir með riðil þegar dregið var í riðla á HM í gær.

Erkifjendurnir Lionel Messi hjá Argentínu og Cristiano Ronaldo hjá Portúgal eru að spila sitt síðasta heimsmeistaramót og dreymir báða um að enda með gullna bikarinn í höndunum.

Þeir ættu ekki að eiga í miklum vandræðum með að komast upp úr sínum riðli.

Argentína er í J-riðli með Austurríki, Alsír og Jórdaníu í riðli en Portúgal er í K-riðli með Kólumbíu, Úsbekistan og svo sigurvegara úr umspili Austur-Kongó, Jamaíku og Nýju-Kaledóníu.

Menn eru nú búnir að reikna það út að ef Argentína og Portúgal vinna sína riðla þá gætu þjóðirnar mæst í átta liða úrslitum keppninnar en sá leikur fer fram í Kansas City.

Það er því ekki möguleiki á úrslitaleik á milli Messi og Ronaldo nema ef liðin misstíga sig eitthvað í riðlinum. Verði annað hvort liðið í öðru sæti í sínum riðli á meðan hitt liðið vinnur sinn riðil þá gætu við fengið Argentínu á móti Portúgal í úrslitaleiknum í New Jersey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×