Fótbolti

Gæti geymt vara­menn inni í klefa á HM vegna hitans

Sindri Sverrisson skrifar
Jude Bellingham þurfti að spila í miklum hita á HM félagsliða í sumar. Búast má við svipuðum aðstæðum á HM landsliða næsta sumar.
Jude Bellingham þurfti að spila í miklum hita á HM félagsliða í sumar. Búast má við svipuðum aðstæðum á HM landsliða næsta sumar. Getty/Jose Breton

Það skýrist í dag hvernig riðlarnir munu líta út á HM karla í fótbolta næsta sumar. Óttast er að mikill hiti muni setja svip sinn á mótið sem fram fer í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada í júní og júlí.

Englendingar bíða spenntir eftir því að vita hvernig leið þeirra að mögulegum heimsmeistaratitli kemur til með að líta út en dregið verður í riðla HM klukkan 17 í dag.

Thomas Tuchel, hinn þýski þjálfari Englands, átti ekki í neinum vandræðum með að koma hinu sterka enska landsliði beint á HM en liðið vann alla átta leiki sína í undankeppninni og fékk ekki eitt einasta mark á sig.

Á HM taka við meiri áskoranir og meðal annars hættan á að mikill hiti hafi áhrif á leikmenn. Á HM félagsliða síðasta sumar, í Bandaríkjunum, brugðu lið jafnvel á það ráð að láta varamenn bíða í loftkældum búningsklefum í stað þess að sitja úti á varamannabekk í leikjum.

„Ef þetta er eitthvað sem gæti hjálpað okkur í leikjunum þá verðum við að skoða þennan möguleika,“ sagði Tuchel við BBC en þar segir að talið sé að mikil hætta sé á ofsahita á 10 af 16 leikvöngum HM.

„Það vill þetta enginn [að varamenn bíði inni í klefa] því ég vil að leikmennirnir séu úti og finni orkuna, og gefi okkur orku af bekknum út á völlinn. En ég sá leikmenn gera þetta á HM félagsliða. Vonandi sleppum við við þetta. Það er alltaf betra ef menn geta verið úti,“ sagði Tuchel.

Leikmenn og þjálfarar kvörtuðu undan hitanum á HM félagsliða í fyrra og Tuchel segir ekki hægt að horfa framhjá því að hitinn hafi áhrif.

„Þetta er vandamál fyrir fótbolta á hæsta stigi. Þetta dregur úr ákefðinni í leikjunum. Þetta fækkar áköfum hlaupum, bæði sóknarlega og varnarlega. Leikurinn aðlagast að þessu. Það er ekki hægt að spila fótbolta með sama hætti í 45 gráðum eins og í 21 gráðu,“ sagði Tuchel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×