Innlent

Fleiri en Seyðfirðingar ó­á­nægðir með samgönguáætlun

Árni Sæberg skrifar
Til stendur að færa þjóðveginn niður fyrir Hveragerði milli Vamár, sem sést hér til hægri, og Kamba.
Til stendur að færa þjóðveginn niður fyrir Hveragerði milli Vamár, sem sést hér til hægri, og Kamba. Vísir/Anton Brink

Bæjarráð Hveragerðisbæjar bókaði í morgun yfirlýsingu um gríðarleg vonbrigði yfir nýkynntri samgönguáætlun, þar sem færslu þjóðvegarins, fyrir neðan Hveragerði frá Kömbum að Varmá, hafi verið frestað enn á ný.

Í fundargerð fundar bæjarráðs segir að í áætluninni sé ekki gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fyrr en í fyrsta lagi árið 2029.

Færslan á þjóðveginum sé mikið hagsmunamál fyrir Hvergerðinga og framtíðarþróun bæjarins með tilliti til umferðaröryggis og framtíðaruppbyggingar. Aðalskipulagi Hveragerðisbæjar hafi verið breytt að beiðni Vegagerðarinnar á sínum tíma og skipulag bæjarins og uppbygging undanfarinna ára miði við að núverandi þjóðvegur verði stofnbraut innan bæjarmarka.

„Bæjarráð Hveragerðisbæjar skorar á þingmenn Suðurkjördæmis að beita sér í málinu og fyrir því að staðið verði við gefin loforð.“

Í samgönguáætlun, sem kynnt var í gær, er lagt til að gerður verði 2+1 vegur með aðskildum akbrautum með vegriði og plan­vega­mót­um á milli Varmár og Kambaróta. Gert sé ráð fyrir framkvæmdinni á árunum 2029 til 2031. 

Hér að neðan má sjá hvernig ráðgert er að vegurinn liggi.

Samgönguáætlun

Sem áður segir var ný samgönguáætlun kynnt í gær og mikið hefur farið fyrir viðbrögðum Seyðfirðinga, sem óhætt er að segja að sjóði á vegna ætlaðra svika yfirvalda gagnvart þeim. Í áætluninni kemur fram að Fjarðarheiðargöng milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar hafa verið sett á ís og Fljótagöng milli Fljóta og Siglufjarðar komin í fyrsta forgang. 

Fjarðargöng, tvenn göng á milli Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar annars vegar og Mjóafjarðar og Norðfjarðar eru komin ofar á listann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×