Erlent

Björguðu gömlum manni af efstu hæð

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Eldurinn dreifðist í sjö af átta samliggjandi íbúðarblokkum.
Eldurinn dreifðist í sjö af átta samliggjandi íbúðarblokkum. EPA

Stjórnvöld í Hong Kong hafa hækkað tölu látinna eftir eldsvoðann í Hong Kong upp í 83 og hátt í þrjú hundruð manns er enn saknað. Reiknað er með að slökkvistarfi ljúki að fullu á næstu klukkustundum. 

Erlendir miðlar höfðu eftir yfirvöldum í Hong Kong í morgun að 44 hefðu látist eftir að eldur kviknaði í einni Wang Fuk-íbúðablokkanna sem dreifðist síðan hratt milli bygginga.

Slökkviliði hefur tekist að slökkva eldinn í fjórum blokkanna og hefur náð tökum á eldinum í hinum þremur. 

Leit erfið á efri hæðum

Fyrr í kvöld greindi slökkvilið frá því að 79 hefðu verið úrskurðaðir látnir á vettvangi og fjórir á sjúkrahúsi. Sjúkraflutningamenn hafi í heildina annast 155 flutninga vegna eldsvoðans. Sólarhringur er síðan greint var frá því að 279 væri saknað en stjórnvöld hafa ekki uppfært þann fjölda síðan.

Leitað hefur verið á neðri hæðum blokkanna en erfitt hefur reynst að komast ofar vegna reyks og hita.

Wong Ka-wing, slökkviliðsstjóri í Hong Kong, sagði á blaðamannafundi í dag að viðbragðsaðilar haldi ótrauðir áfram við björgunaraðgerðir.

„Í morgun björguðum við til dæmis öldruðum karlmanni úr íbúð á 31. hæð í viðkomandi byggingu,“ sagði Ka-wing en þess má geta að blokkirnar eru á 31 hæð hver.

Þrír karlmenn á sextugs- og sjötugsaldri hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins, tveir stjórnendur og verkfræðiráðgjafi hjá byggingafyrirtæki sem sá um endurbætur á byggingunum. Þeir eru samkvæmt umfjöllun Reuters grunaðir um manndráp. 

Talið er að eldurinn hafi breiðst út á milli blokkanna vegna bambusstillansa og nets, sem búið var að koma upp vegna endurbóta, og notkunar á eldfimu frauðefni til viðgerða.

Fjallað var um eldsvoðann í kvöldfréttum. 


Tengdar fréttir

Að minnsta kosti 44 látnir og 280 saknað

Slökkvistarfi er að mestu lokið í Wang Fuk íbúðaturnunum í Hong Kong, eftir gríðarlegan eldsvoða sem braust út í gær. Fjörtíu og fjórir eru látnir og 45 alvarlega slasaðir. Um 280 er enn saknað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×