Handbolti

Elísa er klár í slaginn gegn Serbíu: „Ég er al­veg þyrst í að komast út á gólf“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Elísa var í stóru hlutverki á síðustu tveimur stórmótum og er búin að jafna sig af meiðslum sem héldu henni frá keppni í fyrsta leik.
Elísa var í stóru hlutverki á síðustu tveimur stórmótum og er búin að jafna sig af meiðslum sem héldu henni frá keppni í fyrsta leik. Henk Seppen/BSR Agency/Getty Images

„Ég er búin að fá grænt ljós frá sjúkraþjálfaranum“ segir Elísa Elíasdóttir, línumaður landsliðsins, sem gat ekki tekið þátt í opnunarleiknum í gær en verður klár í slaginn gegn Serbíu á morgun. 

„Það er bara spurning hvað Addi [Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari] ákveður, hvort hann vilji fá mig inn í hópinn í næsta leik eða ekki“ bætti hún svo við.

Elísa hefur verið að glíma við meiðsli í öxlinni síðan í leik Vals og Blomberg/Lippe í Evrópudeildinni, sunnudaginn 16. nóvember, en er búin að jafna sig að fullu.

„Já, mér finnst það. Ég er alveg þyrst í að komast út á gólf og hef trú á því að ég geti komið með eitthvað inn í liðið sem hjálpar þeim.“

Serbía spilar einmitt mjög mikið upp á línumennina, þannig að Elísa verður eflaust velkomin viðbót í varnarleikinn en Katrín Tinna Jensdóttir og Alexandra Líf Arnarsdóttir sjá einnig um línumannastöðuna.

Elísa segist þyrst í að komast út á gólf og fannst erfitt að geta ekki tekið þátt í leiknum í gær, en reyndi að hjálpa liðinu með öðrum hætti.

„Ótrúlega erfitt, sérstaklega í svona stórum leik. Troðfull höllin og geggjuð stemning, en maður reynir bara að styðja þær á annan hátt… Gefa öllum fimmu og standa alltaf upp þegar þær skora og svona. Dana var líka mjög dugleg að fagna til okkar og það gaf manni gott í hjartað“ sagði Elísa einnig en viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. 

Klippa: Elísa búin að jafna sig af meiðslum

Nánar verður fjallað um stelpurnar okkar og leikinn gegn Serbíu í Sportpakkanum í kvöld. Íþróttadeild Sýnar er í Stuttgart og fylgir liðinu eftir á meðan mótinu stendur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×