Fótbolti

Að­eins stuðnings­menn annars liðsins mega mæta á stórleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Bjarki Daðason fær vonandi að spila stórleikinn í dag.
Viktor Bjarki Daðason fær vonandi að spila stórleikinn í dag. EPA/Liselotte Sabroe

Það er stórleikur í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag þar sem Viktor Bjarki Daðason og félagar í FCK Kaupmannahöfn taka á móti nágrönnum sínum í Bröndby.

Þetta verður væntanlega sögulegur leikur hjá þessum hatrömmu nágrönnum því að öllu óbreyttu verður þetta í síðasta sinn sem stuðningsmenn gestaliðsins eru ekki velkomnir á þennan nágrannaslag.

Danski nágrannaslagurinn milli FC Kaupmannahafnar og Bröndby IF er án efa stærsti viðburðurinn í danskri knattspyrnu. Síðasta árið hafa viðburðirnir verið skugginn af sjálfum sér þar sem stuðningsmönnum gestaliðsins hefur verið bannað að mæta á leiki gegn erkifjendunum vegna vaxandi óeirða milli hópa í stuðningsmannahópum félaganna.

Í dag í Parken verður það einnig raunin því aðeins stuðningsmenn FCK verða viðstaddir en það er vonandi í allra síðasta sinn sem stuðningsmenn FCK og Brøndby geta ekki verið viðstaddir á sama leikvangi.

Þetta staðfestir Claus Thomsen, forstjóri dönsku deildarinnar, í samtali við TV 2 Sport.

„Almennt séð óskum við þess hjá dönsku deildinni að á öllum leikjum í danskri knattspyrnu geti verið áhorfendur frá báðum liðum og ákvörðunin er nú sú að þannig skuli það vera árið 2026. Þá afnemum við fyrirmælin um að félögin megi ekki hafa stuðningsmenn gestaliðsins á nágrannaslögum í Kaupmannahöfn,“ sagði Claus Thomsen.

Bannið stendur því enn en þrír síðustu nágrannaslagir Kaupmannahafnarliðanna hafa farið rólega fram án stuðningsmanna gestaliðsins.

Væntanlegur er nýr lagapakki hjá dönsku ríkisstjórninni sem gefur félögum og lögreglu betri skilyrði í baráttunni gegn fótboltabullum.

„Það er ekki hægt að spila næsta nágrannaslag fyrr en í fyrsta lagi í úrslitakeppninni, sem hefst í mars, þannig að bakgrunnurinn fyrir tímasetningu ákvörðunarinnar er að á þeim tímapunkti verður nýi lagapakkinn kominn á sinn stað,“ sagði Thomsen.

„Við vitum ekki enn nákvæmlega hvað verður samþykkt á danska þinginu, en við gerum til dæmis ráð fyrir að andlitsgreining verði komin á sinn stað þegar næsti nágrannaslagur verður spilaður árið 2026. Það verður einn af mörgum þáttum í lagapakka sem gerir það að verkum að við stöndum á alveg nýjum grunni,“ sagði Thomsen.

Andlitsgreiningin hjálpar lögreglu að finna fótboltabullurnar og koma þeim af svæðinu áður en þær ná að skapa vandræði.

Viktor Bjarki Daðason og Rúnar Alex Rúnarsson eru báðir í leikmannahóp FCK í leiknum sem hefst klukkan 11.00 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×