Handbolti

Sel­foss sótti ó­vænt sigur og Aftur­elding dregst aftur úr

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Afturelding hefur dregist aðeins aftur úr toppbaráttu Olís deildarinnar.
Afturelding hefur dregist aðeins aftur úr toppbaráttu Olís deildarinnar. vísir

Selfoss sótti óvænt sigur eftir æsispennandi leik gegn Aftureldingu, sem missti af mikilvægum stigum í toppbaráttunni í Olís deild karla. Lokatölur í Mosfellsbænum 28-29.

Afturelding er í 2. sæti deildarinnar en Selfoss er í 11. sætinu. Flestir hefðu því búist við sigri hjá heimamönnum en Selfyssingar höfðu aðrar hugmyndir og buðu upp á hörkuleik.

Afturelding var með forystuna lengst af og leiddi með þremur mörkum í hálfleik en um miðjan seinni hálfleik sneri Selfoss taflinu við og komst þremur mörkum yfir.

Sveiflurnar urðu fleiri því Afturelding að jafna og komast aftur yfir, en heimamenn skoruðu síðan ekkert síðustu fimm mínútur leiksins á meðan Selfoss setti tvö mörk sem dugðu til sigurs.

Alexander Hrafnkelsson átti mjög mikilvæga markvörslu þegar aðeins hálf mínúta var eftir og kom í veg fyrir að Afturelding jafnaði leikinn.

Hannes Höskuldsson og Anton Breki Hjaltason voru markahæstir hjá Selfossi með 6 mörk hvor en Árni Bragi Eyjólfsson var markahæstur hjá Aftureldingu með 8 mörk.

Sigurinn kemur Selfossi upp að hlið Þórs frá Akureyri en bæði lið eru með 7 stig, í 11. og 10. sæti deildarinnar.

Tapið er sérlega súrt fyrir Aftureldingu því Haukar unnu sinn leik gegn HK fyrr í kvöld og styrktu stöðu sína á toppnum. Afturelding er nú þremur stigum frá toppliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×