Handbolti

Veikindi í landsliðshópnum: „Þær segja að þetta sé mér að kenna“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þórey Anna er smitberi samkvæmt liðsfélögum sínum í landsliðinu.
Þórey Anna er smitberi samkvæmt liðsfélögum sínum í landsliðinu. sýn / skjáskot

Veikindi hafa herjað á íslenska landsliðið í handbolta, í undirbúningi liðsins fyrir heimsmeistaramótið sem hefst í næstu viku.

Klippa: Þórey Anna smitaði liðsfélagana í landsliðinu

„Það er eitthvað búið að vera að ganga hérna innan liðsins en sem betur fer eru allir að ná sér, hægt og rólega, og vonandi verða allir frískir þegar mótið byrjar“ sagði Þórey Anna Ásgeirsdóttir, landsliðskona og leikmaður Vals.

Er þetta ekkert að trufla þig? spurði Valur Páll Eiríksson þá.

„Nei, ég held að ég hafi byrjað þetta“ sagði Þórey en liðsfélagar hennar í Val hafa einnig veikst.

„Þær segja að þetta sé mér að kenna“ sagði Þórey létt í bragði og hafði litlar áhyggjur af sinni heilsu fyrir HM.

„Ég er bara orðin mjög góð.“

Hafa gott af góðum æfingaleik

HM hefst í næstu viku og Ísland spilar opnunarleik mótsins gegn heimaliði Þýskalands þann 26. nóvember en fyrst fer liðið í æfingabúðir til Færeyja yfir helgina.

„Þetta verður góður æfingaleikur, ég myndi segja að við værum mjög svipuð lið, þannig að þetta verður hörkuleikur og við höfum bara gott af því fyrir þetta mót.“

Markmiðið á HM ekkert leyndarmál

Þórey Anna fór ekki á EM í fyrra en var valin aftur í hópinn fyrir HM. Hún segir það mikinn heiður og setur stefnuna á að komast áfram í milliriðlana.

„Maður er í þessu til að vera á þessum stórmótum og vonandi er þetta eitthvað sem getur orðið hefð hjá íslenska kvennalandsliðinu í handbolta. Við erum með okkar markmið og það er ekkert leyndarmál, að fara í milliriðla er okkar helsta markmið á þessu móti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×