Innlent

Stað­festu dóm höfuðpaurs en milduðu dóma annarra

Árni Sæberg skrifar
Jón Ingi Sveinsson, sem heldur hér bók fyrir andlit sitt, ræðir við Björgvin Jónsson verjanda sinn í Héraðsdómi Reykjavíkur á sínum tíma.
Jón Ingi Sveinsson, sem heldur hér bók fyrir andlit sitt, ræðir við Björgvin Jónsson verjanda sinn í Héraðsdómi Reykjavíkur á sínum tíma. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur staðfest sex ára dóm Jóns Inga Sveinssonar, höfuðpaurs þaulskipulagðs og umfangsmikils fíkniefnahóps, í Sólheimajökulsmálinu svokallaða en mildað dóma annarra. 

Dómur var kveðinn upp í Sólheimajökulsmálinu í Landsrétti í dag. Haukur Ægir Hauksson hlaut tveggja ára og níu mánaða dóm og Gunnlaugur J. Skarphéðinsson fjögurra ára. Þeir höfðu hlotið fimm ára dóma í héraði. 

Pétur Þór Guðmundsson hlaut þriggja og hálfs árs dóm en hafði hlotið fjögurra ára dóm í héraði. Dómur annars manns sem hlaut fjögurra ára dóm í héraði var mildaður í níu mánuði.

Í héraði voru þrjár konur og einn karl dæmd í þriggja ára fangelsi. Dómur Valgerðar Sifjar Sigurðardóttur var mildaður í tvö ár, annarrar konu í átján mánuði og þeirrar þriðju í þrjátíu daga skilorðsbundinn dóm. Dómur karlsins var mildaður í níu mánuði.

Tveir aðrir sakborningar áfrýjuðu dómum sínum til Landsréttar en þeir hlutu skilorðsbundna dóma, bæði í héraði og fyrir Landsrétti.

Í málinu voru sakborningar ákærðir fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfelld fíkniefnalagabrot með því að sammælast um sölu og dreifingu fíkniefna hér á landi. Þau hafi verið meðvituð um tiltekna verkaskiptingu sem varðaði geymslu, pökkun, sölu og dreifingu efnanna. Í gögnum málsins hafði þessari verkaskiptingu verið líkt við fyrirtæki.

Sakborningar málsins voru þegar ákæra var gefin út átján talsins, en hlutur nokkurra þeirra var klofinn frá og tekinn fyrir sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×