Lífið

„Mjög pirruð út í hvort annað eftir frum­sýninguna“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kolfinna og Sturla eru par og vinna mjög náið saman einnig í leikhúsinu.
Kolfinna og Sturla eru par og vinna mjög náið saman einnig í leikhúsinu.

Að vera eða ekki vera er spurning sem hefur vissulega staðist tímans tönn enda hluti eins rómaðasta harmleiks allra tíma.

Hamlet eða leikrit leikritanna er nú til sýnis á fjölum Borgarleikhússins í enn eitt skiptið. Þessi nýjasta útgáfa hefur nú þegar vakið nokkra athygli fyrir ögrandi og nýstárleg umfjöllunarefni.

Í Íslandi í dag á Sýn í gærkvöldi ræddi Tómas Arnar við leikstjóra verksins, Kolfinnu Nikulásdóttur.

En hvernig er dagur í lífi leikstjórans viku eftir frumsýningu?

Anda sig í gegnum þetta

„Það er alveg erfitt að fara á fætur sko eftir svona mikla törn og það hellist yfir mann vonleysi, depurð og einmanaleiki. Maður þarf bara að anda í gegnum þetta og þakka fyrir það líka, þetta er bara sætt.“

Kolfinna segir að um ákveðið fæðingarþunglyndi sé að ræða enda undirbúningur og vinna að verkinu búin að standa yfir í marga mánuði.

„Og svo bara er ekkert, leikararnir leita til þín á frumsýningarvikur og þú veist svörin við öllu. Svo hættir síminn að hringja og þú verður bara að engu,“ segir Kolfinna og hlær.

En áður en við köfum dýpra í leikhúsið skulum við fara yfir sögu þessa pönkara, aðgerðarsinna og Reykjavíkurdóttur. Ævi Kolfinnu hefst í París þar sem hún bjó til sjö ára aldurs ásamt foreldrum sínum.

Kolfinna á ættir að rekja til Frakklands og bjó hún þar til sjö ára aldurs.

„Að hafa þennan bakgrunn er bara ómetanlegt. Ég kunni frönskuna, pabbi er hálfur Frakki. Afi er franskur og ég á fjölskyldu í Frakklandi. Þau geta alveg talað ensku en þau gera það ekki. Svo er amma frá Púertó Ríkó svo þetta er alheimsblanda,“ segir Kolfinna. Þegar heim til Íslands var komið gekk hún í Austurbæjarskóla. Þar voru unnin ýmis bernskubrek og mikil gleði en einnig barátta.

„Maður var bara að berjast fyrir einhverjum betri heimi, svona eins og börn eru. Alveg frá því að ég var pínulítil vildi ég taka alla að mér og hjálpa öllum. Þetta var til að mynda Palestína og þetta var 2004 og þá var enginn að spá í Palestínu í kringum okkur og fólk vissi bara ekki neitt. Og það var líka innrásin í Írak. Og Kárahnjúkavirkjun og stóriðja, svona þessir dílar sem var verið að gera.“

Kolfinna er ekki aðeins með gott auga fyrir sviðsetningu og leikstjórn, heldur er hún einnig greinilega með gott eyra, en til að mynda var hún hluti af Reykjavíkurdætrum, sem var skrautlegur tími í hennar lífi. Á þeim tíma gekk Kolfinna undir listamannsnafninu Kylfan og muna eflaust margir eftir útistöðum sem hún átti í við rapparann Emmsjé Gauta. 

Alltaf félagar

Tíst frá honum um að Reykjavíkurdætur væru feit pæling sem gengi einfaldlega ekki upp var mikið á milli tannanna á fólki þá fyrir ríflega tíu árum síðan. Kylfan svaraði því fullum hálsi.

„Já, já, við vorum allan tímann félagar, sko,“ segir Kolfinna.

Sigurbjartur Sturla Atlason fer með aðalhlutverkið í Hamlet en hann er einnig sambýlismaður Kolfinnu. Þau skrifuðu leikgerðina í sameiningu og er þetta í annað sinn sem þau leiða hesta sína saman. Þau féllu hvort fyrir öðru undir lokin á ferlinu fyrir Ástþreyju.

„Níu vikur undir minni stjórn og það myndast eitthvað svona rosalegur, rosalegt ójafnvægi í svona karl- og kvenorkunni. Það gengur rosa vel hjá okkur að vinna saman og við erum að byggja ofan á grunninn okkar sem myndaðist í Ástþreyju þegar við vorum að rannsaka kalldýrið. Það gerir það að verkum að við erum komin með tungumál og aðferðir og traust og það sparast svo mikill tími af þessu. Og þetta er bara algjör unaður en á móti kemur að ég er leikstjóri og hann er leikari og ég að endingu ræð. Og svo bara þegar þetta er búið og við vorum í svona þrjá daga bara mjög pirruð út í hvort annað eftir frumsýninguna, já. Þá var það held ég að koma út sko, uppsafnað. Og ég var pirruð á öllu svona,“ segir Kolfinna en hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.