Körfubolti

Ár­menningar leggja árar ekki í bát og leita að nýjum Kana

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dibaji Walker hefur yfirgefið herbúðir Ármanns í Bónus deild karla.
Dibaji Walker hefur yfirgefið herbúðir Ármanns í Bónus deild karla. vísir / anton brink

Ármann hefur losað bandaríska framherjann Dibaji Walker undan samningi við liðið í Bónus deild karla í körfubolta. Ármenningar ætla þó ekki að leggja árar í bát, þrátt fyrir afleitt gengi í upphafi tímabils, og eru í leit að nýjum Bandaríkjamanni.

Karl Höskuldur Guðlaugsson, stjórnarformaður körfuknattleiksdeildar Ármanns, staðfesti tíðindin í samtali við Vísi og sagði:

„Við ætlum að finna nýjan leikmann, okkur fannst hann [Dibaji Walker] ekki alveg komast í takt við það sem við þurftum á að halda. Þannig að við erum að reyna að finna nýjan leikmann til að lífga aðeins upp á þetta“ sagði Karl og tók fram að það væri engin uppgjöf í Ármenningum.

„Við erum bara rétt að byrja. Þetta er búin að vera brekka, sem er kannski eðlilegt, þegar við erum að spila í fyrsta skipti í úrvalsdeild [síðan 1981.] Þegar liðið var hér í gamla daga var ekki þetta úrvalsdeildarform, þannig að við erum að læra inn á þetta“ sagði Karl.

Ármann mun halda hinum þremur erlendu leikmönnum liðsins, Hollendingnum Lagio Grantsaan, Svíanum Daniel Love og Slóvakanum Marek Dolezaj, ásamt öllum íslensku leikmönnunum auðvitað.

Nýliðarnir hafa tapað öllum sex leikjum tímabilsins. Bandaríkjamaðurinn missti af fyrstu tveimur leikjunum en mætti svo með krafti og skoraði 34 stig í fyrsta leik. Síðan hefur hann ekki sýnt sömu snilli og aðeins skorað 10, 8 og 6 stig í síðustu þremur leikjum.

Walker er nú laus allra mála og Ármann leitar að nýjum bandarískum leikmanni. Næsti leikur liðsins er gegn Íslandsmeisturum Stjörnunnar í Garðabænum á morgun klukkan 19:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×