Lífið

Fundaði með rabbína til að biðjast af­sökunar á gyðingaandúðinni

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Kanye West ásamt Pinto rabbína og túlki sem miðlaði málum.
Kanye West ásamt Pinto rabbína og túlki sem miðlaði málum.

Rapparinn Kanye West fundaði með rabbínanum Yoshiayao Yosef Pinto til að biðjast afsökunar á fjandsamlegum ummælum sínum um gyðinga. West sagði það vera blessun að geta axlað ábyrgð.

West og Pinto funduðu saman á þriðjudag en plötusnúðurinn DJ Akademiks birti myndband af fundi þeirra á Instagram í gær. Þar sjást West og Pinto haldast í hendur og ræða saman gegnum túlk.

Síðastliðinn þrjú ár hefur West ítrekað gerst sekur um hatursfull ummæli um gyðinga. Árið 2022 var honum úthýst af bæði Instagram og Twitter fyrir færslur sem hvöttu til ofbeldis gegn gyðingum. Fjöldi fyrirtækja skar í kjölfarið á tengsl við hann.

Rapparinn sagðist árið 2023 ekki lengur hata gyðinga vegna leiks Jonah Hill í grínmyndinnni 21 Jump Street. Í lok sama árs baðst hann afsökunar á ummælum sínum á hebresku og vonaðist eftir fyrirgefningu.

Fyrr á þessu ár dró hann svo í land með það, sagðist vera nasisti sem elskaði Adolf Hitler, sagði gyðingahatur bull sem gyðingar bjuggu til og lýsti því yfir að hann ætlaði aldrei aftur að biðjast afsökunar á ummælum sínum.

Eins og barn sem er skilið eftir eitt heima

Hann stóð þó ekki lengi við þá yfirlýsingu og hefur nú ákveðið að biðjast afsökunar á fyrri ummælum sínum.

„Það er blessun að sitja hérna og axla ábyrgð,“ segir West í upphafi samtalsins. 

„Ég var að glíma við ýmis vandamál. Ég var líka að glíma við geðhvörf svo ég tók hugmyndir sem ég var með og gleymdi að vernda fólkið í kringum mig og sjálfan mig. Svo ég vil axla ábyrgð.“

West líkti ástandi sínu síðan við það að skilja barn eftir eitt heima.

„Það er eins og þú hefðir farið úr húsi og skilið krakkann eftir heima og krakkinn þinn rústað eldhúsinu, bílskúrnum og stofunni. Síðan þegar þú kemur aftur heim þá berð þú ábyrðina,“ sagði West.

Hann ætlaði því að þrífa eldhúsið, stofuna og bílskúrinn og axla ábyrgð á fyrri ummælum sínum. Hann sagði jafnframt að þetta væru fyrstu skrefin í að byggja „sterka veggi“ sambands hans við samfélag gyðinga.

Ekki skilgreindur af mistökum

„Manneskja er ekki skilgreind af mistökum sínum heldur hvernig hún ákveður að bæta upp fyrir þau,“ svaraði Pinto gegnum túlk sinn.

„Þetta er raunverulegur styrkur manns: Færnin til að snúa aftur, læra og byggja brýr ástar og friðar.“

Kanye West hefur ekki verið á mála hjá útgáfufyrirtæki síðan 2022 þegar samningur hans við UMG kláraðist. Platan Donda 2 kom út í vor og ætlaði hann að gefa út plötuna Bully í haust en hefur ítrekað þurft að seinka henni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.