Fótbolti

Sex hand­tökur í mót­mælum fyrir leik í Evrópudeildinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lögreglan hefur handtekið sex manns í tengslum við mótmæli fyrir leik Aston Villa og Maccabi Tel Aviv.
Lögreglan hefur handtekið sex manns í tengslum við mótmæli fyrir leik Aston Villa og Maccabi Tel Aviv. Shaun Botterill/Getty Images

Leikur Aston Villa og ísraelska liðsins Maccabi Tel Aviv í Evrópudeildinni er nýhafinn, án gestaáhorfenda, en mikil átök áttu sér stað við leikvanginn í Birmingham vegna mótmæla. Sjö hundruð lögregluþjónar voru sendir á vettvang og handtóku sex manns.

Staðan er enn markalaus í leiknum og tæpur hálftími liðinn þegar þessi frétt er skrifuð.

Fyrir leik létu hópar mótmælenda í sér heyra fyrir utan leikvanginn og áhorfendur sem voru á leiðinni á leikinn blönduðust í þvöguna. Úr varð algjör hafsjór af fólki, fótboltaaðdáendum mestmegnis en einnig öðrum sem virtust lítinn áhuga hafa á leiknum sjálfum.

Átök brutust út, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi, og sex hafa verið handteknir.

Um fjörutíu mótmælendur, þeirra á meðal einn sem hélt á fána Ísraels, hópuðu sig saman og mótmæltu því að UEFA hefði bannað aðdáendum Maccabi Tel Aviv að mæta á leikinn.

Mótmæli þeirra virðast svo hafa undið upp á sig og farið að snúast um meira en bara þennan fótboltaleik, samkvæmt Sky Sports voru ýmis málefni tekin fyrir en aðallega snerust mótmælin um „aldagamla baráttu gegn gyðingahatri.“

Mynd af vettvangi.getty

Á móti komu mörg hundruð manna sem tóku undir ákvörðun UEFA og mótmælu þátttöku ísraelskra félagsliða í Evrópukeppnum.

Á samfélagsmiðlum má finna myndbönd þar sem múslimskir íbúar Birmingham flagga palestínska fánanum og setja upp skilti sem banna aðkomu síonista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×