Íslenski boltinn

Davíð Smári hikar ekki: „Við ætlum að vinna þessa deild“

Aron Guðmundsson skrifar
Davíð Smári Lamude náði einstökum árangri sem þjálfari Vestra sem vann sinn fyrsta stóra titil undir hans stjórn.
Davíð Smári Lamude náði einstökum árangri sem þjálfari Vestra sem vann sinn fyrsta stóra titil undir hans stjórn. vísir/Diego

Eftir farsælan tíma hjá Vestra tekur Davíð Smári við liði Njarðvíkur í Lengju­deildinni í fót­bolta sem var ekki langt frá því að tryggja sig upp í Bestu deildina á nýaf­stöðnu tíma­bili. Hann er óhræddur við að leggja spilin á borðið varðandi mark­mið sitt með liðið á því næsta.

„Ég bara þannig þenkjandi að ég kann ekki vel við að tapa og mark­miðið verður ein­hvern veginn alltaf að fara inn í bara að vinna næsta leik. En að taka svo stórt upp í sig núna bara á þessum tíma­punkti og segja: „við ætlum að vinna deildina“, það væri kannski ekki gáfu­legt að segja það bara ein­hvern veginn núna.

En ég er bara þannig gerður að ég hika ekkert við það. Við ætlum að vinna þessa deild og munum leggja okkar af mörkum til þess og vonandi finn ég áfram fyrir þessum krafti sem ég hef fundið fyrir hingað til og alveg fram að tíma­bili og við þurfum að leggja gríðar­lega hart að okkur til þess að ná þeim árangri.“

Þakklátur Njarðvíkingum fyrir þolinmæðina

Undir stjórn Davíðs náði lið Vestra sögu­legum árangri. Tryggði sig upp í Bestu deildina á sínum tíma og varð á nýaf­stöðnu tíma­bili bikar­meistari í fyrsta sinn í sögu félagsins með sigri á Val í úr­slita­leik á Laugar­dals­velli og tryggði sér um leið Evrópusæti.

Eftir að ljóst varð að ekki yrði fram­hald á sam­starfi hans og Vestra settu nokkur félög sig í sam­band við Davíð Smára og er hann þakk­látur Njarðvíkingum fyrir þolin­mæðina í sinn garð.

„Það var vissu­lega eitt annað lið sem að svona var með mig á radarnum og svona hélt mér frá því taka ákvörðun í ein­hvern tíma. En ég bara verð alveg hrein­skilinn með að ég er mjög ánægður með það hvar ég endaði og er spenntur fyrir fram­haldinu.“

Ofboðslegur kraftur

Njarðvík hefur verið að taka skref upp á við undan­farin ár, liðið endaði í 2.sæti Lengju­deildarinnar á síðasta tíma­bili undir stjórn Gunnars Heiðars Þor­valds­sonar en tókst ekki að koma sér upp í Bestu deildina í gegnum um­spil deildarinnar.

Það er margt sem heillar Davíð Smára við verk­efnið fram­undan.

„Það er kannski auðvitað frábært gengið í fyrra og liðið var vel strúktúrerað og þjálfað og ég er svo sem að taka við bara nokkuð góðu búi og það er bara of­boðs­lega mikill kraftur þarna, alla­vega í stjórn félagsins og menn eru gríðar­lega ákveðnir í að gera enn þá betur en í fyrra og það er kannski það sem heillaði mest og sam­hljómur við það sem átti sér stað þegar ég tek við Vestra liðinu á sínum tíma.“ 

„Það var auðvitað of­boðs­lega mikill kraftur í stjórn félagsins þá sem skilaði sér auðvitað gríðar­lega vel til liðsins og orku til mín og maður fékk mikið traust. Ég svona upp­lifi að það verði svipað uppi á teningnum í Njarðvík. Þannig að ég, það er klár­lega það sem heillar mig og það sem ég nærist á. Að menn séu með ákveðin mark­mið í huga og ætla að fylgja þeim fast eftir. Það hljómar vel í mín eyru.“

Davíð Smári Lamude skráði nafn sitt rækilega í sögubækurnar með sínum þætti í fyrsta stóra titli Vestfjarða í fótbolta.vísir/Ernir

Þú varst náttúru­lega búinn að fá smjörþefinn af Bestu deildinni. Er það svekkjandi að þurfa að taka eitt skref niður í Lengju­deildina?

„Já og nei. Það er auðvitað svekkjandi að þegar maður búinn að fá að starfa í því skemmti­lega um­hverfi sem að Besta deildin er en svo er maður líka í þessu fyrir sigra, ekki bara sigra í fót­bolta­leikjum heldur bara svona litla sigra. Að ná árangri og reyna ein­hvern veginn að ýta því félagi sem maður vinnur fyrir á hærra gæða­stig. Koma ein­hvern veginn inn og hjálpa til við að að taka næsta skref. Og ekki endi­lega bara inn á fót­bolta­vellinum, heldur öllu í kringum liðið og allt félagið. 

Vonandi tekst mér og mínu teymi að tengja félagið betur. Okkur gekk mjög vel að gera það fyrir vestan og ég er mjög stoltur af því að við náðum of­boðs­lega sterkri einingu. Ein­hvern veginn engir árekstrar í einu eða neinu og allir voru að stefna í sömu átt. Ég er gríðar­lega stoltur af því og ég vona að það bara haldi áfram að vera þannig fyrir vestan og vona að ég geti inn­leitt það líka hjá Njarðvík.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×