Körfubolti

„Ha, átti ég metið?“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir vissi ekki að hún ætti þriggja stiga metið sem Bríet Sif Hinriksdóttir var að jafna í síðasta leik.
Pálína Gunnlaugsdóttir vissi ekki að hún ætti þriggja stiga metið sem Bríet Sif Hinriksdóttir var að jafna í síðasta leik. Vísir/Diego/Sýn Sport

Bríet Sif Hinriksdóttir jafnaði þriggja stiga metið í efstu deild kvenna í körfubolta í síðustu umferð Bónusdeildar kvenna í körfubolta og það kom methafanum algjörlega í opna skjöldu í Körfuboltakvöldi kvenna.

Bríet Sif skoraði einn þrist í sigurleik Keflavíkur á Króknum sem var hennar 455. í efstu deild. Með því jafnaði hún met Pálínu Gunnlaugsdóttur sem hafði áður tekið metið af Birnu Valgarðsdóttur.

Pálína var einmitt sérfræðingur í Bónus Körfuboltakvöldi þegar fjallað var um leik Keflavíkurliðsins en hún vissi ekkert um að hún ætti sjálf metið.

Klippa: Bríet jafnaði þriggja stiga met Pálínu

„Það var samt einn merkilegur þristur sem kom í þessum leik í gær. Bríet Hinriksdóttir setti þennan þrist hér,“ sagði Ólöf Helga Pálsdóttir og sýndi þristinn. „Þarna var hún að jafna met í flestum þristum, Pálína,“ sagði Ólöf og um leið kom upp topplistinn þar sem Pálína var jöfn Bríeti í efsta sætinu.

„Ha, átti ég metið,“ sagði Pálina hissa. „Ég þarf að rífa fram skóna,“ sagði Pálina létt.

Hallveig Jónsdóttir, sem var hinn sérfræðingur þáttarins, var einnig á listanum eða í sjötta sætinu með 406 þrista.

Það má sjá þessa skemmtilegu uppákomu í þættinum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×