Innlent

Flestir van­treysta ráð­herrum Flokks fólksins

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Yfir helmingur aðspurðra í nýrri könnun Maskínu segist bera lítið traust til Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra.
Yfir helmingur aðspurðra í nýrri könnun Maskínu segist bera lítið traust til Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra. Vísir/Anton Brink

Flestir vantreysta ráðherrum Flokks fólksins samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Í könnuninni var annars vegar mælt hversu mikið traust fólk ber til tiltekinna ráðherra og hins vegar hversu lítið. Vantraust til flestra ráðherra eykst talsvert á milli kannana.

 Flestir bera lítið traust til Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra, eða fimmtíu og fimm prósent. Þegar síðasta sambærilega könnun var gerð í janúar gegndi flokkssystir hans Ásthildur Lóa Þórsdóttir embættinu. Á milli kannana og eftir ráðherraskiptin hefur vantraustið aukist tuttugu og þrjú prósent.

Næstflestir bera lítið traust til Ingu Sæland, eða um helmingur og breytist það lítið milli kannana. Í þriðja sæti er Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, með í kringum fjörutíu prósent. 

Þorgerður Katrín, utanríkisráðherra fylgir rétt á eftir, og því næst eru þeir Logi Einarsson, ráðherra menningar-, nýsköpunar og háskólamála, og Jóhann Páll umhverfisráðherra, sem öll mælast í kringum þrjátíu og fimm prósent.

Forsætisráðherra í eftirsóttu botnsæti

Aðrir ráðherrar Viðreisnar skipa sér í næstu sæti á eftir, eða þau Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra. Tæplega þrjátíu prósent segjast bera lítið traust til þeirra. 

Í líklega eftirsóttum botnsætum eru Alma Möller heilbrigðisráðherra og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, en um fjórðungur ber lítið traust til þeirra.

Röðin er nær alfarið öfug þegar litið er á hversu mikið traust fólk ber til ráðherranna. Kristrún og Alma eru á toppnum, og ráðherrar Viðreisnar fylgja á eftir. Traust til Daða Más eykst umtalsvert á milli kannana, eða um tuttugu og eitt prósent. Ráðherrar Flokks fólksins skipa sér aftur á móti í neðstu sætin.

Könnun Maskínu fór fram dagana 8. til 15.október og voru svarendur 1.232 talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×