Körfubolti

„Gott að við gátum verið liðið sem kláraði þetta“

Pálmi Þórsson skrifar
Daníel klappar sínum konum lof í lófa í leikslok.
Daníel klappar sínum konum lof í lófa í leikslok. Vísir/Anton Brink

KR vann frábæran útisigur á Val í kvöld þegar liðin mættust í Bónus-deild kvenna, 93-100, en með sigrinum tylltu KR-ingar sér á topp deildarinnar.

Daníel Andri Halldórsson, þjálfari KR, var að vonum kátur með sigurinn. 

„Bara góður sigur í einhverjum grannaslag. Bæði lið virtust mæta nokkuð ákveðin til leiks og gott að við gátum verið liðið sem kláraði þetta.“ 

Valur byrjaði leikinn mun betur en KR-ingar svo tóku völdin og þá sérstaklega Molly Kaiser. 

„Við fengum bara brjálaða leiki frá Rebekku, Kananum (Molly Kaiser) og auðvitað fleirum. Það voru allir að stíga upp og við vorum að búa til auðveld skipti fyrir kanann og hún fékk bara svolítið að njóta sín. Það getur verið þreytandi að fá þannig körfur á sig aftur og aftur. Ég held að það hafi klárað þetta fyrir okkur.“ 

KR-ingar reyndu að pressa í dag sem fór ekki eins og Daníel hélt að það myndi fara.

„Svæðispressan gekk ekki upp í dag. Við látum hana bara ganga upp seinna. Það er bara aftur á teikniborði núna. En ég var svolítið að kalla eftir því yrðum grimmari en við höfum verið. Við erum með fæsta stolna bolta í deildinni og það er bara ekkert til í því miðað við mannskap.“ 

En grimmdin kom svo sannarlega í kvöld og náðu þær að hraða leiknum sem var þeim í vil. 

„Ég held að það sé engin í KR treyju sem finnst leiðinlegt að hlaupa fram og til baka. Leita að auðveldu skotunum og við vorum að fá þau á köflum í dag. Gæti sagt að það sé svona okkar einkennismerki og við nýttum það vel í dag.“ - Sagði Daníel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×