KR - ÍA 109-75 | KR-ingar sýndu allar sínar bestu hliðar þegar þeir burstuðu Skaga­menn

Hjörvar Ólafsson skrifar
090A0782

KR og ÍA mættust fyrsta skipti í efstu deild karla í körfubolta, eftir aldarfjórðungs bið, í fimmtu umferð Bónus-deildar karla á Meistaravöllum í kvöld. KR sýndi mátt sinn og megin að þessu sinni og vann að lokum 34 stiga sigur. 

í fimmtu umferð Bónus-deildar karla í körfubolta á Meistaravöllum í Vesturbænum í kvöld.

Liðin hafa farið vel af stað í deildinni á keppnistímabilinu en KR hafði haft betur í þremur leikjum fyrir þessa viðureign og Skagamenn tveimur.

Það tók smá tíma fyrir bæði lið að koma sér almennilega í gang í þessum leik eftir jafnan fyrsta leikhluta þar sem KR var skrefinu á undan var staðan 24-22 heimamönnum í vil.

KR-ingar byggðu svo hægt og rólega upp forskot sem varð mest 16 stig í öðrum leikhluta. Þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var staðan svo 52-38 fyrir KR.

Linards Jaunzems og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson fóru fyrir KR-liðinu í fyrri hálfleik en Reynir Bjarkan Barðdal Róbertsson varð níundi leikmaðurinn til þess að setja stiga á töfluna fyrir KR þegar hann setti niður tvö sig á lokaandartökum annars leikhluta.

Leikmenn KR spiluðu feykilega öfluga vörn í upphafi þriðja leikhluta og hitnuðu svo um munar fyrir utan þriggja stiga línuna. Kenneth Jamar Doucet Jr setti niður þrist um miðbik þriðja fjórðjungs og munurinn kominn upp í 26 stig, 66-40.

KR-liðið slakaði ekkert á klónni í framhaldinu og þéttur varnarleikur liðsins sem og skilvirkur sóknarleikur sá til þess að heimamenn voru 30 stigum yfir, 75-45, undir lok þriðja leikhluta. Fyrir lokafjórðunginn var síðan 84-57 fyrir KR.

Fjórði leikhluti rann sitt skeið án þess að Skagamenn næðu að velgja KR-ingum undir uggum og lokatölur 109-75 KR í vil. 

Jakob Sigurðarson var sáttur við lærisveina sína. Vísir/Diego

Jakob Sigurðarson: Gott svar við tapinu gegn Grindavík

„Við náðum að loka vel á þeirra helstu vopn í sóknarleiknum og spiluðum þétta og góða vörn lengstum í þessum leik. Það skilaði sér í skilvirkum sóknarleik og heilt yfir vorum við mjög góðir. Við erum að vinna í því að ná stöðugleika í okkar frammistöðu og þetta var skref í rétta átt í þeim efnum,“ sagði Jakob Sigurðarson, þjálfari KR, að leik loknum. 

„Við vorum ósáttir með hvernig við spiluðum á móti Grindavík og það tap sveið sárt. Við áttum góða æfingaviku fram að þessum leik og sú ákefð sem var þar skilaði sér inn í leikinn sem er jákvætt,“ sagði Jakob enn fremur. 

„Við vorum að gera hlutina einfalt og vel sem er lykillinn á því að ná fram góðum leik. Við fengum framlag úr mörgum áttum og það gleður mig að sjálfsögðu,“ sagði hann. 

„Eins og ég sagði áðan vildum við kvitta fyrir slakan leik gegn Grindavík og koma okkur aftur á rétta braut. Það tókst og nú þurfum við að halda áfram að fínpússa varnarleikinn og gera hlutina áfram á einfaldan og skilvirkan hátt í sóknarleiknum,“ sagði Jakob um framhaldið. 

Óskar Þór: Vorum slegnir niður á jörðina 

„Við náðum að komast á þau svæði sem við vildum í sóknarleiknum framan af leiknum en þeir náðu svo að loka á það og við áttum engin svör eftir það. Því fór sem fór,“ sagði Óskar Þór Þorsteinsson, þjálfari ÍA, eftir tap sinna manna. 

„Það er svekkjandi að hafa ekki náð fram betri frammistöðu en þetta er í fyrsta skipti sem við erum slegnir niður á jörðina á þessari leiktíð. Við höfum átt tvo góða leiki í röð á heimvelli og við þurfum að sýna og sanna að við getum gert það líka á útivelli,“ sagði Óskar Þór þar að auki. 

„Við náðum okkur aldrei á strik í varnarleiknum og það varð okkur að falli að þessu sinni. Við þurfum bara að læra af þessu tapi og sjá til þess að þetta gerist ekki aftur,“ sagði hann. 

„Við sýndum vissulega smá baráttuanda undir lokin og leikmenn lögðu sig alla fram frá upphafi til enda. Niðurstaðan er aftur á móti 34 stiga tap sem svíður hressilega,“ sagði Óskar um tilfinningar sínar eftir leik. 

Óskar Þór Þorsteinsson, þjálfari ÍA.Mynd/ÍA

Atvik leiksins

KR-ingar settu upp skotsýningu fyrir utan þriggja stiga línuna í öðrum og þriðja leikhluta sem sigli Skagamenn í kaf. Karfan stækkaði með hverju skoti og boltinn varð heitari. 

Stjörnur og skúrkar

Þórir Guðmundur var í essinu sínu en leikmyndin hentaði honum einkar vel. Sterk vörn KR varð til þess að hann fékk hvað eftir annað tækifæri til þess að ráðast á fámenna Skagavörn á opnum velli. 

Þórir Guðmundur skoraði 24 stig í þessum leik og var stigahæstur. Linards Jaunzems kom næstur með 19 stig og kaflaskipt frammistaða Kenneth Jamar Doucet Jr skilaði 17 stigum. Aleksa Jugovic setti svo 15 stig á töfluna en þegar upp var staðið lögðu 11 af 12 leikmönnum KR-liðsins í púkkinn í stigaskorun liðsins. 

Styrmir Jónasson og Gojko Zudzum voru atkvæðamestir hjá Skagamönnnum með 17 stig hvor. Kristófer Már Gíslason var heitur í fyrri hálfleik og setti niður 16 stig. 

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, þeir Bjarki Þór Davíðsson, Jakob Árni Ísleifsson og Bergur Daði Ágústsson, voru lítt áberandi í þessum leik og það er dómgæsla að mínu skapi og af þeim sökum fá þeir átta í einkunn fyrir vel unnin störf.

Stemming og umgjörð

Góðar víbrur í Vesturbænum í kvöld. Bæði lið rækilega studd af stuðningsmönnum sínum sem fjölmenntu. Langar að hrósa plötusnúði KR-inga sérstaklega fyrir fjölbreytt og sérdeilis prýðilegt lagaval sitt.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira