Erlent

Hafa játað aðild að ráninu í Louvre

Samúel Karl Ólason skrifar
Tveir af fjórum ræningjum hafa verið handteknir og eru sagðir hafa játað aðild að ráninu.
Tveir af fjórum ræningjum hafa verið handteknir og eru sagðir hafa játað aðild að ráninu. AP/Thomas Padilla

Mennirnir tveir sem handteknir voru um helgina vegna ránsins í Lovure hafa játað, að hluta til, að hafa komið að ráninu. Tveir menn ganga enn lausir og krúnudjásnin og aðrir verðmætir munir sem þeir stálu af safninu hafa ekki fundist enn.

Munirnir eru metnir á nærri því þrettán milljarða króna.

Á blaðamannafundi sem lögreglan í París hélt í dag kom fram að mennirnir tveir verði ákærðir fyrir ýmis brot og að þeir standi frammi fyrir fimmtán árum í fangelsi, verði þeir fundnir sekir.

Í frétt Le Parisien segir að báðir séu kunningjar lögreglunnar og eigi sér sögu innbrota og ofbeldisglæpa. Þeir eru báðir á fertugsaldri.

Mennirnir tveir sem eru í haldi voru handteknir síðasta laugardagskvöld. Annar þeirra fannst vegna hárs sem var inni í mótorhjólahjálmi sem skilinn var eftir á flótta mannanna. Lögreglunni mun hafa tekist að bera kennsl á hinn vegna vestis sem hann klæddist þegar mennirnir tveir brutu sér leið inn í safnið.

Annar þeirra var handtekinn á leið um borð í flugvél og var hann á leið til Alsír.

Sjá einnig: Tveir handteknir vegna Louvre ránsins

Tveir aðrir menn komu að ráninu, svo vitað sé. Þeir stýrðu kranabílnum sem mennirnir notuðu til að ræna safnið. Talsmenn lögreglunnar vildu lítið sem ekkert tjá sig um leitina að þeim.

Samkvæmt lögreglunni bendir ekkert til þess að þeir hafi notið aðstoðar einhverra af starfsmönnum safnsins.

Þá hefur lögreglan ekki útilokað að mennirnir hafi framið ránið að áeggjan eða með stuðningi stærri hóps eða annarra aðila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×