Erlent

Fjór­tán drepnir í á­rásum á meinta fíkniefnasmyglara

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AP/Julia Demaree

Bandaríkjaher gerði þrjár árásir á fjóra báta á alþjóðlegu hafsvæði undan ströndum Mexíkó og Gvatemala á mánudaginn. Fjórtán létust en einn bjargaðist.

Frá þessu greindi varnarmálaráðherrann Pete Hegseth í gær en yfirvöld í Bandaríkjunum hafa nú banað 57 í aðgerðum sínum gegn meintum fíkniefnasmyglurum.

Hegseth sagði bátana fjóra hafa verið að flytja fíkniefni eftir þekktum leiðum. Átta hefðu verið á tveimur bátum sem ráðist var á í fyrstu árásinni, fjórir um borð í bát þegar önnur árásin var gerð og þrír um borð þegar ráðist var á fjórða bátinn.

Stjórnvöld vestanhafs hafa ekki lagt fram neinar sannanir þess efnis að allir þeir bátar sem ráðist hefur verið á hafi sannarlega verið að flytja fíkniefni. Aðgerðirnar hafa verið harðlega gagnrýndar og lýst sem handahófskenndum árásum á erlenda ríkisborgara.

Til viðbótar við árásirnar á bátana hafa yfirvöld verið að fljúga sprengjuþotum í alþjóðlegri lofthelgi við strendur Venesúela, „til að sýna mátt sinn“. Þau eru sögð freista þess að þrýsta á Nicolás Maduro, forseta landsins, til að láta af völdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×